Blönduóskirkja
Blönduóskirkja
Pistlar | 16. apríl 2015 - kl. 10:08
Organistapistill - Að eiga saman söng í hjarta
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Þeim fækkar ört vetrardögunum og sjálfum vetrinum lýkur miðvikudaginn 22. apríl og þá ætla félagar í gamla kórnum okkar, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps að fagna 90 ára afmæli kórsins, sem hélt fyrstu söngskemmtun sína fyrsta sunnudag í sumri 1925 eins og lesa má um í riti kórsins, Tónar í tómstundum eða Stikli 1 þar sem tínd eru fram gögn um kórinn. Þau eru flest skráð af Jónasi Tryggvasyni frá Finnstungu og fyrrum söngstjóra. Jónas var líka ágætt skáld og orti Heklusöng fyrir samband norðlenskra karlakóra:

Látum drengir hljóma hátt
Heklusöng á miðju vori.
Tökum hverja sorg í sátt.
Sjáum aðeins heiðið blátt
svo við getum saman átt
söng í hjarta, blóm í spori.
http://stikill.123.is/blog/2011/11/11/550654/
http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=j0&ID=4081

Þessi vetur verður sá seinni sem ég á með Húnvetningum og þó sérstaklega Blönduósingum, hef verið þeim organisti þennan tíma, farið norður á miðvikudagsmorgnum, þá eru æfingakvöld kórsins í fallegu og hljómmiklu kirkjunni þeirra – stendur uppi á kirkjuhólnum utan við jökulelfuna Blöndu, þaðan sem sér langt út á flóann, Strandafjöllin fannhvít í björtu veðri en Hornbjargið sjálft sést kannski svona í eitt, tvö skipti á ári.

Sjá myndir frá nágrönnum handan flóans í Árneshreppi: http://www.litlihjalli.is/myndir/22/1203/  Margar skemmtilegar og baráttufullar greinar að finna á Litlahjalla: http://www.litlihjalli.is/adsendar_greinar/Adsend_grein_fra_Olinu_Thorvardardottur/ Myndasíða: http://www.litlihjalli.is/myndir/

Með strætó hef ég oftast farið norður á Blönduós, legg af stað kl. 9 úr Mjóddinni og er kominn að N1, Skálanum um kl. 13. Fjölmarga hef ég hitt í vagninum á þessum tveimur vetrum, flesta kunningja eða vini frá fyrri tíð, vagnstjórarnir Þórdís, Óli og Gísli hafa verið fastir og traustir póstar í ánægjulegum ferðum, Jósafat frá Króki kemur stundum í bílinn í Norðurárdalnum, þ. e. sögur af Jósafat og vísur um hann, fermingarbarn var hann þar í Hvammskirkju, varð síðan smali hjá klerknum og rak 284 ær hans(við þriðja mann) norður í Mælifell og gætti þeirra þar fram yfir sauðburð, varð síðar vinnumaður á Nautabúi, Leifsstöðum, Bollastöðum og stórbóndi á Brandsstöðum en undir ævilokin ráðsmaður við Kvennaskólann á Blönduósi. http://stikill.123.is/blog/2008/09/17/292203/    

Um helgina var ég syðra með fjölskyldunni, á mánudaginn áttum við, gamlir félagar úr kennarastétt góðan klukkutíma í Bókakaffinu á Selfossi eins og við gerum mánaðarlega, drukkum mest kakó og töluðum margt um vísur og fornsögur, sömuleiðis lá vel á okkur í nónsöng sama dag, einhverjir duttu í sögur en þó var líka mikið sungið, m. a. s. Svínárnesvísur Binna í Núpstúni og einhver söngfélaginn var að syngja þær í fyrsta skipti.

Mikið lét nú lífið okkur litlu kvíða
meðan kvöldsins kyrrð og blíða
klappaði á vanga Rauðárhlíða.
Brynjólfur Guðmundsson Núpstúni

Rósberg fær að eiga síðasta orðið, þ.e. versið og orti það í okkar einu borg, Reykjavík:

Geng ég einn hin glæstu torg
girt með húsum nýjum,
hef þó margfalt betri borg
byggt úr tómum skýjum. RGSn.   
http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=16179    

Gleðilegt sumar lesari góður!
Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga