Framkvæmdir á skotsvæðinu
Framkvæmdir á skotsvæðinu
Fréttir | Pistlar | 07. júní 2015 - kl. 11:28
Fréttir frá Skotfélaginu Markviss
Frá Skotfélaginu Markviss

Undanfarnar vikur hafa félagsmenn Skotfélagsins Markviss unnið hörðum höndum að endurbótum á skotsvæði félagsins. Búið er að tyrfa völlinn og nánasta umhverfi, leggja hellur, grafa niður staura og svo mætti lengi telja. Undirbúningur fyrir Landsmót 50+ er langt kominn og mun skotsvæði félagsins vonandi skarta sínu fegursta þann 26. júní næstkomandi þegar keppni í skotfimi fer fram.

Enn frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar eftir Landsmót 50+ og vonumst við til að þeim verði að mestu lokið fyrir Landsmót STÍ sem fram fer hér á Blönduósi dagana 18-19 júlí.

Af keppnisfólki okkar er það að frétta að Jón Brynjar Kristjánsson er búinn að keppa á tveim BR50 mótum nú í vor, fyrra mótið var Húsasmiðjumót á Húsavík þar sem Jón hafnaði í sjötta sæti á fínu skori. Þá keppti hann á Vormóti Skotfélags Akureyrar í síðustu viku og hafnað þar í öðru sæti.

Haglagreinafólkið hefur staðið í ströngu það sem af er vori, alls er búið að keppa á sex mótum frá apríl byrjun og hefur árangur verið ágætur. Sem stendur er Snjólaug M. Jónsdóttir efst af stigum í kvennaflokk að loknum þremur landsmótum, þá jafnaði hún einnig íslandsmet sitt á móti í síðasta mánuði.

Eins og allir vita þá er Smáþjóðaleikum nýlokið og voru þrír félagsmenn úr Markviss við störf á skotsvæðinu á Álfsnesi dagana sem keppni í leirdúfuskotfimi fór fram, en það voru þau Guðmann Jónasson Snjólaug M. Jónsdóttir og Jóna P.T.Jakobsdóttir.

Gaman að segja frá því að í keppninni var skotið hæsta skor sem skotið hefur verið hérlendis (123/125) auk þess sem Örn Valdimarsson bætti Íslandsmet sitt og skaut 121 af 125.

Skotfélagið Markviss er á Facebook.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga