Fréttir | Pistlar | 19. júní 2015 - kl. 11:29
Við erum full tilhlökkunar
Viðtal við Aðalbjörgu Valdimarsdóttur, formann USAH vegna Landsmóts UMFÍ 50+

„Undirbúningur fyrir mótið hefur gengið með ágætum. Við í nefndinni höfum hist reglulega í þó nokkurn tíma, metið stöðuna og farið í hluti sem þurft hefur að bæta og laga. Þetta hefur verið skemmtilegur tími. Við erum með gott fólk innan okkar raða sem er tilbúið að vinna og láta gott af sér leiða. Það getur skipt sköpum að hafa gott fólk með sér,“ sagði Aðalbjörg Valdimarsdóttir, formaður Ungmennasambands Austur-Húnvetninga, sem er framkvæmdaaðili Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi.

Aðalbjörg sagði að ungmennasambandið hefði haft augastað á þessu móti um tíma og sótt um að halda það 2012 þegar USAH var 100 ára. Blönduósbær hvatti okkur til að sækja um aftur en bærinn hefur stutt USAH í bak og fyrir eins og Aðalbjörg komst að orði.

„Við vorum í skýjunum þegar í ljós kom að við hefðum fengið mótið til okkar í sumar. Mótahaldið verður ennfremur til þess að bæta og fegra ýmsa umrædda aðstöðu,“ sagði Aðalbjörg.

– Er þetta ekki með stærri verkefnum sem USAH hefur tekið að sér?

„Svona með þeim stærri en við héldum Unglingalandsmót hér á Blönduósi 1995 sem var stórt og mikið verkefni. Mótið í sumar er skemmtileg og krefjandi áskorun og þjappar fólkinu hér á svæðinu vel saman. Íþróttalíf hefur alltaf verið töluvert hér á sambandssvæðinu, lengi vel voru frjálsar íþróttir mjög fyrirferðarmiklar en í dag eru júdó og knattspyrna hvað vinsælustu íþróttagreinarnar,“ sagði Aðalbjörg.

Aðalbjörg sagði gaman að sjá hvað allir væru tilbúnir að leggja hönd á plóg, ekki bara fólk tengt sambandinu heldur líka fólkúr öllum geirum. Aðspurð hvort það væri mikil vinna og áskorun að halda svona mót sagði hún svo vera. Þetta væri þó vel framkvæmanlegt enda aðstaðan á Blönduósi mjög góð. Ekki hefði þurft að fara út í neinar framkvæmdir nema að frjálsíþróttaaðstaðan var lagfærð og bætt. Allt annað væri til taks á staðnum.

„Við erum full tilhlökkunar og það verður gaman að taka á móti keppendum og gestum. Við erum miðsvæðis, stutt til Reykjavíkur og stutt frá Akureyri. Þetta verður fín reynsla fyrir ungmennasambandið og fólk sem mun smám saman taka við af okkur. Landsmót UMFÍ 50+ hafa svo sannarleg sannað ágæti sitt en fólk frá okkur hefur verið verið duglegt að sækja
mótin allt frá upphafi. Þeir sem hafa byrjað að fara hafa farið aftur og aftur og það segir sína sögu um ánægjuna. Við verðum að hafa í huga að mótin eru ekki eingöngu keppni heldur ekki síður vettvangur til að hittast og kynnast nýju fólki alls staðar að af landinu,“ sagði Aðalbjörg Valdimarsdóttir, formaður USAH.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga