Pistlar | 05. júlí 2015 - kl. 20:30
Þeim er ekki sjálfrátt
Eftir Guðríði B. Helgadóttur

„Vesalings aumingjarnir.  Þeim er ekki sjálfrátt.“ Heyrði ég áður sagt um þá sem voru svo heimskir og andlega fatlaðir að þeir komu sér og öðrum, æ ofan í æ, í allskonar vandræði með vanhugsuðum afhöfnum og mistökum.

En það fyrsta sem mér kom í hug, þegar ég heyrði fréttina um að nú væru Blönduósingar komnir af stað með hugmynd um ÁLVER Á SKAGASTRÖND, þetta getur ekki verið satt. En svo fylltist hugur minn sorg og ég hugsaði, „Gjör eigi þann óvinafagnað.“  Hafanandi upplifað deilurnar og mannorðs morðin í þeirri orrahríð, sem stóð hér um sveitir í aðdraganda að Blönduvirkjun. Væntingarnar, svikin loforð, glópagullið, sokkið land og svívirta heimabyggð.

Fyrir gjöf til álrisa úti í heimi og meðgjöf í formi ívilnana á kostnað landsmanna! Og stighækkandi rafmagnskostnaði til landsbyggðarinnar.

Hvað varð um rafmagnið sem sumir væntu þá að fá ókeypis fyrir línulögn um landareignir og þægð?  Hvar eru framfarirnar, sem fylgja áttu í kjölfar Blönduvirkjunar á þeim tíma uppgangs og atvinnu? Og nú ætlar þetta sama lið að bjarga sér út úr kröggum með því að BIÐJA KÍNVERJA um þá ölmusu að koma nú með álver og setja það niður á Hafurstöðum á Skagaströnd, þar sem það gæti þjónað bæði Skagfirðingum og Húnvetningum. Því Bægifætur norðan Þverárfjalls hafa heitið stuðningi sínum og virkjunarkostum við túnfótinn sinn í Héraðsvötnum og dölum fram. 

Hvað um það þó upp rísi önnur Sturlungaöld þar innan héraðs! Hvað um það þó útlendu listamennirnir sem koma til að dvelja tíma og tíma í kyrrðinni á Skagaströnd, komi nú fýluferð og flýi annað. Þeir gátu víst skilið eftir einhverjar vel þegnar krónur og farið út með góða landkynningu, en hvað um það. Og á Blönduósi kæra menn sig víst ekkert um listamenn. A.m.k. hröktu þeir í burtu útskurðarlistamanninn sem gert hafði áður garðinn frægan með listaverkum í húsakinnum þjónustuvera við Geysi  og víðar. Þó gömlu brunarústirnar hér nyrðra, sem hann gerði upp og að safni handgerðra listaverka á hurðum og innréttingum, þá horfðu menn lokuðum huga fram hjá því, en sáu ofsjónum yfir lóðarskika sem lögum samkvæmt fylgdi þó þessu húsi og listamanninn langaði til að reisa á sína skúlptúra, en fékk ekki. Svo úr urðu níðstangir, reistar staðnum til hneisu.  Og nú ætla þeir að reisa sjálfum sér níðstöng við Hafurstaði!  

Svo  ætlar þetta sama landslið að fórna friði og framtíð héraðanna á altari Mammons .

„Þeim er ekki sjálfrátt, vesalings aumingjunum.“

Og það er ekki einu sinni hægt að afsaka þá eða fyrirgefa, því þeir vita vel hvað þeir eru að gera. En þeir hafa verið kjörnir af fólkinu til að vera í forsvari fyrir sínar heimabyggðir og bera ábyrgð gagnvart því. Ætlar fólkið að fljóta svo sofandi að feigðarósi að það láti slíkt yfir sig ganga án þess að rumska.   Hvað um ört vaxandi ferðaþjónustu í Skagafirði, ónotaða möguleika í stóriðjuylrækt við heitar uppsprettur víða á þessu svæði, ónotan flugvöll, sem liggur best við til lendingar af öllum stöðum á landinu vegna legu og veðurskilyrða. Sem millilandaflugvöllur gæti hann best þjónað þegar á reynir og einnig tekið við beinum útflutningi á ferskum afurðum landbúnaðar og ylræktar, sem þessi héruð Húnavatns og Skagafjarðar eru kjörin til framleiðslu á. Fegurð þeirra, menningin, skólarnir, landið og miðin, allt lagt upp í hendurnar á fólki sem opin bók. Og það sér ekkert nema álver?!

Nei. Því trúi ég ekki fyrr en ég tek á því. Svo marga þekki ég sem láta slíkt ekki yfir sig ganga. Og það vona ég að minn hugur verði aldrei svo vankaður  að hann samþykki slíkt glapræði sem hér er á ferð.

 Enn á ég eftir nóga orku til að hrópa og hrópa hátt: VAKNIÐ SVEFNPURKUR !  VAKNIÐ OG SJÁIÐ SÓLINA SKÍNA!

Skrifað 3. 7. 2015
Guðríður  B. Helgadóttir           
                    

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga