Róbert Daníel og fjölskylda
Róbert Daníel og fjölskylda
Pistlar | 06. júlí 2015 - kl. 10:46
Blönduós er staðurinn fyrir fjölskylduna
Eftir Róbert Daníel Jónsson

Við fjölskyldan ákváðum að flytja aftur út á land fyrir tíu árum síðan eftir að hafa verið nokkur góð ár í Reykjavík. Ég og konan mín erum bæði frá Bolungarvík þannig að við þekktum vel þá kosti að búa í litlu samfélagi í mikilli nálægð við fallega náttúru. Við erum mjög dugleg að fara í gönguferðir í bænum og okkar og næsta nágrenni og eigum ótal uppáhaldsstaði.

Mig langar að fjalla um útivistar- og afþreyingarmöguleika á Blönduósi fyrir fjölskyldur á ferðalagi. Það sem mig langar þá að skrifa um tengist því að ég fæ oft sömu spurninguna frá vinum, kunningjum og reyndar viðskiptavinum líka þar sem ég starfa sem forstöðumaður í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi sem er „hvað er eiginlega hægt að gera á Blönduósi?“.

Einn vinur minn sem er mikill húmoristi sagði einu sinni, „stoppar maður ekki bara á bensínsjoppunni, skóflar í sig, prumpar og heldur áfram til Akureyrar“. Mig langar að leiðrétta þennan miskilning og benda á hvað er hægt að gera sér til afþreyingar á Blönduósi og þá svoldið fjölskyldumiðað. Blönduós er algjör útivistarparadís, fallegar gönguleiðir, mikið fuglalíf og klárlega staður veiðimannsins þar sem margar þekktustu laxveiðiár landsins eru í næsta nágrenni og veiðivötnin fjölmörg. Sólsetrin eru stórkostleg og sjást svo fallega ef horft er frá ósi Blöndu og út á Húnaflóann.

Það eru margir möguleikar fyrir þá sem vilja stoppa í lengri tíma en mig langar að koma með hugmyndir ef fjölskyldan ætlar að stoppa í ca. 3 tíma á Blönduósi. Þá langar mig að mæla með þremum fjölskyldustoppum sem er hægt er að stokka upp að sjálfsögðu:

Fjölskyldustopp númer 1.
Í fyrstu þá mæli ég með gönguferð í Hrútey sem er eyja sem klífur Blöndu í tvennt. Í eyjunni er mikið fuglalíf og fallegar gönguleiðir í ævintýralegu umhverfi. Eftir gönguferðina er komið að sundferðinni en hér er glæsileg útisundlaug og aðstaðan þar eins og best verður á kosið fyrir fjölskyldufólk; heitir pottar, vaðlaug og rennibrautir. Þannig að það er bæði hægt að fá útrás og ná góðri slökun. Að lokum eftir sundferðina þegar allir eru orðnir svangir er farið á Ömmukaffi og fengið sér hressingu en Ömmukaffi er krúttlegt kaffihús við sundlaugina í gulu húsi sem opnaði í maí. 

Fjölskyldustopp númer 2 (fyrir þá sem eru að koma t.d. frá Reykjavík).
Gönguferð upp með Giljá sem er rétt vestan við Blönduós sem hefst hjá bílaplani móts við bæinn Stóru-Giljá. Gangan er einn kílómetra upp með ánni og svo tilbaka aftur. Þetta er skemmtileg fjölskylduganga meðfram fallegum gljúfrum og endar við Efstafoss. Eftir gönguferðina er tilvalið að koma við á Laxsetrinu á Blönduósi og skoða fróðlega sýningu, lifandi fiska og barnahorn.
Að því loknu er tilvalið að borða á veitingastaðnum Pottinum  sem er mjög barnvænn.

Fjölskyldustopp númer 3.
Hestaferð hjá Hestaleigunni Galsa. Ferðin sem ég ætla mæla með tekur 1 ½ klst. Einnig er hægt að láta teyma undir í gerði sem er tilvalið fyrir þau yngstu, það tekur um 20 mín. Eftir hestaferð tilvalið að leggja bílnum hjá Kvennaskólanum og fara í gönguferð eftir Bakkastígnum, yfir Blöndubrúnna og ganga vestan megin við ánna að ósnum. Í Fuglaskoðunarhúsinu á Einarsnesi eru góðar upplýsingar um fuglana á svæðinu og flott aðstaða til að taka myndir og fyrir sjónauka líka. Góð nestisaðstaða við fuglahúsið, þannig að endilega taka nesti með.

Ég gæti haldið áfram að upp í tillögu númer 100 af fjölskyldustoppi svo margir eru möguleikarnir hér í austur-Húnavatnssýslu til að njóta dagsins með fjölskyldunni í rólegu og fallegu umhverfi í lengri eða skemmri tíma.

Njótið sumarsins.
Róbert Daníel Jónsson Blönduósingur

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga