Jörundarfell í Vatnsdalsfjalli
Jörundarfell í Vatnsdalsfjalli
Pistlar | 18. ágúst 2015 - kl. 09:10
Stökuspjall - Útsunnan við mána
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Laxárdalur og Vatnsnes skiluðu kvæðamönnum í fang Reykjavíkur á fyrri hluta síðustu aldar, en í Húnaþingi öllu bjó líka fjöldi skáldmæltra manna. Góðan þátt í draga fram styrk ljóðsins eiga þeir sem gáfu út safnbækur fyrir héruð sín, en Húnvetningar á Akureyri höfðu forgöngu um að safna til Húnvetningaljóða og vísnavefurinn notið góðs af.

Undir Öxlinni á Vatnsdalsfjalli fæddist Halldór á Leysingjastöðum sem sýndi okkur fjöruga mynd af lækjum í hlutverki tónlistarmanna:

Undirleik við suðra söng
semja kátir lækir.
Knýjast fram úr klettaþröng,
kviklátir og sprækir. HGJ

Og Halldóri varð ekki svarafátt þegar ritstjóri Húnavökunnar spurði hvort hann yrki:„ – Já, auðvitað yrki ég. Yrkja ekki allir menn? Ég er alltaf að yrkja. – Túnið mitt – byggingar – allt, sem mér dettur í hug og ég framkvæmi, það er minn skáldskapur.“

Tuttugu árum eldri var Hindisvíkurpresturinn, Sigurður Norland, sem fékk sér sjónarhól upp á eggjum Vatnsnessfjalla til að lýsa fyrir sýslungum sínum víðáttu umhverfisins. Skáldið sér:

Tinda Eyjafjarðar fjalla,
fjölda hnjúka, skörð,
allt frá vegi Vatnahjalla
vestur á Breiðafjörð.

Húnaflóa Furðustrendur,
firðir, eyjar, sker,
þetta er allt í augsýn, stendur
opið fyrir þér.
Lítum austur, opnast geimur
eins og sjónhverfing,
þetta er engin „annar heimur“,
aðeins Húnaþing.

Húnaflói – kvæða- og vísnavefur vill taka þátt í að tengja héruð og einstaklinga við flóann. Einnig teygist þráður suður yfir heiðar til borgarinnar við Faxaflóa og þar býr fjöldi manna sem tengist héruðunum við flóann. Við Hrútafjörðinn stendur Byggðasafnið sem Strandamenn og Húnvetningar sameinuðust um að safna til fyrir mörgum áratugum. Héraðsskólinn á Reykjum var líka sóttur af fjölda ungmenna úr sömu sveitum og þorpum. Héruðin við flóann eiga sameiginlegt að liggja á jaðri síns landsvæðis; Strandir eru austurhluti Vestafjarða en í Húnaþingi vesturbyggðir Norðurlands.

Undir Vatnsdalsfjalli fæddist annar Sigurður ári síðar en nafni hans í Hindisvík. Sá Sigurður bar Nordalsnafn, nam íslensk fræði og starfaði og bjó í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Hann lýsir inn í heim skálds:

Alltaf finn ég eitthvert skjól
ef að élin grána.
Á eyjunni fyrir austan sól
og útsunnan við mána.

Nafni hans í Hindisvík var stórbóndi, átti rómað hrossakyn og tíundar það með stuðlum:

100 á ég hrossin góð
hér við 40.
Finnst nú varla fegra stóð
´49.

Hverju fær ekki stakan lýst?

Til er vísað:
Halldór Jónsson/Vorvísur: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=4762
Á Vatnsnesfjalli: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=s0&ID=4099
Sigurður Nordal: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=22245
Stökuspjall 1/Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga