Húnaflói
Húnaflói
Pistlar | 07. september 2015 - kl. 08:34
Stökuspjall - Heiðin magnar seið
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Laxárdalur, heimur skálda og kvæðamanna, er að málast haustlitum þessa daga eins og aðrir dalir við Húnaflóann. Þar voru stórar jarðir og lítil kot sem nú standa auð en vísurnar sem þaðan komu lifa á bókum eða á vefnum. Ein af dætrum dalsins, Guðríður B. Helgadóttir, býr norður á Sauðárkróki og sendi frá sér bók með eigin ályktunum, vísum og dýrðlegum myndum af saumuðum verkum hennar. Guðríður fagnaði vori með hringhendu:

Mjög þá heiðin magnar seið
manni greiðust verða sporin,
úr sér breiðir opin leið
inn í þreyðust lönd á vorin.

Hausti er heilsað með annarri vísu. Göngur Vatnsdælinga ná vestur yfir Stórasand:

Þá í Fljótsdrög ferðin lá
fjöllin móti hlógu.
Stæltum fótum fákar þá
funa úr grjóti slógu. ÁK

Börn fá sínar vísur hjá skáldunum sem raulaðar eru af barnfóstrum og foreldrum. Stundum voru þær gerðar til að hræða börnin eins og ljóðið austan úr Fljótsdal, Það var barn í dalnum sem datt oní gat, en oftar voru þær valdar til að róa börnin eða gleðja. Vestur á Hólmavík bjuggu roskin hjón, Helga og Kristinn í gömlu húsi við aðalgötuna, sonur þeirra Sigurður, seinna lögreglumaður á Krók bjó ásamt Helgu konu sinni í næstu íbúð og þriðja Helgan í húsinu var dóttir ungu hjónanna en synirnir hétu Kristinn Sveinn og Jóhannes Björn. Öllu þessu fólki kynntist ritarinn þegar hann kenndi við Barnaskólann á Hólmavík vorið 1968. Þá var hafísvor. Stundum var gestkvæmt í þrönga eldhúsinu hjá Helgu Sigurðardóttur, sem unni ljóðum, gerði sjálf ljóð og þessa litlu hringhendu um sonarsoninn handan við þilið:

Er í spjalli ætíð snjall,
engra hallar kæti.
Hér á palli Kristinn kall
kann sér valla læti.

Sonurinn Sigurður gaf ljóðin hennar út nokkru fyrir andlát hennar og kenndi þau við saknaðarfullt ljóð hennar, Ég man, ég man.

Undir fellinu í Vatnsdal orti Páll prestur um dótturdóttur:

Gamlan afa Guðrún skrafar viður,
margt á góma mál þeim ber,
mjög lærdómaríkt sem er.

Næsta vísa er húsgangur, týnt er hver er höfundurinn og þeir gátu verið margir ef vísan breyttist í meðförum.

Sittu og róðu, svo ertu góður drengur,
við skulum ekki vola par,
við skulum þola raunirnar.

Suður í Flóa, á prestsetrinu í Hraungerði ólust upp bræðurnir Ólafur og Geir. Varð annar prestur en hinn biskup. Um Ólaf var ort:

Tunglið má ei taka hann Óla
til sín upp í himnarann.

Þá fer hún mamma að gráta og góla
og gerir hann pabba sturlaðan.

Ég held því best um hátíð jóla
að halda sér í rúmstólpann.

Vísað er til:
Guðríður B. Helgadóttir: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=g0&ID=17505

Þessi kona á tíunda tugnum: https://gegnir.is/F/X5E7Y953M2M6XFGXY7K7DK6G4QU4IQ7H1THBDVRE1AKNLSU1T5-14497?func=full-set-set&set_number=036612&set_entry=000006&format=999

Ásgrímur Kristinsson: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26282   

Helga Sigurðard. Hólmavík: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=17679 Páll Bjarnason Undirfelli: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=17536&ut=1      

Tunglið má ei taka hann Óla: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/769509/

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga