Pistlar | 28. október 2015 - kl. 10:39
Góður námsárangur í Dreifnámi A-Hún.
Eftir Ásdísi Ýr Arnardóttur

Nú á dögunum luku nemendur Dreifnáms í A-Hún. svokölluðu miðannarmati en þá ljúka nemendur hluta námsefnis á miðri önn. Miðannarmat hefur í raun tvíþættan tilgang, annars vegar að stuðla að jöfnu námi nemenda alla önnina og hins vegar að koma auga á ef inngripa er þörf.

Það er sérstaklega gleðilegt að miðannarmat haustið 2015 kemur talsvert betur úr en miðannarmat haustið 2014, meðaleinkunn hækkar úr 5,11 í 6,90. Námsárangur er almennt góður að, skóinn kreppir helst í stærðfræði og spænsku en til að bregðast við því verður boðið upp á stoðtíma vikulega fram að annarlokum.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á framhaldsskólakerfinu og tók ný námsskrá gildi nú í haust. Áföngum hefur verið breytt bæði hvað varðar áherslur og efnistök. Ein vegamesta breytingin snýr að styttingu náms til stúdentsprófs en nú er hægt að ljúka prófi á 3 árum frá FNV (eða styttri tíma, kjósi nemendur svo). Samfara þessu hefur skipulagi brauta verið breytt og nýjar brautir verið samþykktar, til að mynda er boðið upp á sérstaka fjölgreinabraut. Sú braut sem hentar til dæmis nemendum vel sem hafa stundaða einingabært nám í hestamennsku (Knapamerki) og tónlistarnám (grunnpróf). Brautinni er ætla að koma til móts við ólík áhugasvið nemenda og ólíkar þarfir þeirra. Við val á brautum þó alltaf mikilvægt fyrir að huga að því hvert þeir stefna, m.a. með tilliti til þeirra forkrafna sem háskólar setja um  undirbúning í framhaldsskóla.

Alls hófu 11 nemendur nám í Dreifnámi nú á haustönn, flestir eru búsettir á Blönduósi en einnig eru nemendur úr Húnavatnshreppi og Skagabyggð.

Ásdís Ýr Arnardóttir, MA.
Umsjónarmaður dreifnáms í A-Hún.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga