Pistlar | 26. janúar 2016 - kl. 22:06
Af hverju fundur um heimavinnslu matvæla og/eða matarsmiðju?
Eftir Sigrúnu Hauksdóttur og Selmu Svavarsdóttur

Hugmyndin kviknaði í haust eftir að hafa fylgst með fréttum um íslenskan landbúnað, hollustu matvöru, sauðfjárbændum og fleirum í útrás með vörur sínar á Borough matarmarkaðnum í Lundúnum og ýmsar aðrar fréttir um matarmarkaði, framsetningu lambakjöts og neytendur almennt.

Þá hugsuðum við: Hvað erum við Húnvetningar að gera í þessum málum? Er eitthvað verið að gera hér, er einver með afurðir beint frá býli? Hér eigum við frábært landbúnaðarhérað sem hefur upp á allt að bjóða. Getum við gert eitthvað til að auka við þær afurðir sem þegar eru til staðar?

Við ákváðum að hafa samband við nokkrar konur og sjá hvað þær segðu. Hugmyndirnar flæddu af stað, allt frá handverki, matarsmiðju í handverks- og matarmarkað eða búð með afurðir úr héraði. Það leiddi okkur að því hvað þyrfti að gera til að komast af stað með afurðir  beint frá býli eða matarsmiðju. Anna Margrét Jónsdóttir hafði nýverið verið á fundi með Óla Þór hjá Matís sem vissi allt um það hvernig á að koma upp slíkri aðstöðu. Ákveðið var að kalla hann til til að halda erindi um hvað gera þarf, skref fyrir skref, til að mega vinna matvæli heima, þ.e. leyfismál, ferla og fleira.

Með þessum fundi viljum við stuðla að því að allir sem hafa áhuga á heimvinnslu matvæla í hvaða mynd sem er hafi möguleika á að kynna sér ný tækifæri.

Fundurinn verður haldinn næstkomandi miðvikudag, 27. janúar, klukkan 20:00 í sal BHS, Húnabraut 13 á Blönduósi.

Sigrún Hauksdóttir
Selma Svavarsdóttir

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga