Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Pistlar | 21. mars 2016 - kl. 09:20
Stökuspjall “ Standbergshallir í hverju fjalli
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Fyrir 70 árum stóðu ungmennafélagar á Selfossi fyrir stofnun kirkjukórs, sem hefur starfað af krafti æ síðan og fagnaði afmæli sínu s. l. laugard., þ. 19. mars og bauð grannkórum sínum að syngja með sér í afmælinu. Þeir þekktust boðið og æfðu þá m. a. Guð hæst í hæð eftir Schultz, sem ekki hefur verið flutt í áratugi, þó það eigi sitt góða athvarf í Fjárlögunum, en var nú rifjað upp í tilefni þessarar hátíðar.

Annan sálm og mun yngri söng kórinn stóri fyrir framan altarið í glæsilegri Selfosskirkju: Til þín Drottinn hnatta og heima við lag Þorkels Sigurbjörnssonar, en höfundur ljóðsins, Páll Kolka héraðslæknir var gott skáld eins og þetta ljóð er til marks um. Hann starfaði lengi á Blönduósi og hafði þar daglega fyrir augum öldur, kátar og kersknar, sem hann notaði svo í skáldlega kvörtunarvísu eins og ýmsir gerðu:

Ýfast tekur aldan sölt
úti um svið á hausti.
Ljóðasnekkjan lek og völt
liggur upp í nausti. PK

Hundruð vísna hafa verið ortar þar sem skáldin kvarta yfir því að ekki sé hlustað á þá og vísnagersemar þeirra og sérstakt kvörtunarefni er hvað ungmeyjar sýni vísum þeirra lítinn áhuga. Svo kemur heimurinn til skjalanna og segir að þetta sé bara í nösunum á þeim hvað sem það á svo að þýða. Hvar ætti að reyna að finna svo valdamikinn fjölmiðlafulltrúa að hann tæki upp hanskann fyrir almannaróminn?

Þorsteinn frá Gilhaga á Fremribyggð skilgreinir vanda vísnasmiðsins á kankvísan hátt – og lætur ógert að hampa eigin ágæti:

Barning minn við stuðla stím
stympingar má kalla.
Efni kvæða, orð og rím
ei vill saman falla. ÞM

Hann eins og næsti vísnasmiður flutti á gráa möl af grænni grund:

Fast við kletta freyðir sær.
Flár og grettur undir brúnum.
Sælt og mettað grasið grær
á góðum, sléttum afbragðstúnum. SS

Vísuna orti Steinn Steinar og ruddi sér til rúms í skáldheimum suður við Faxaflóa, eignaðist Ásthildi Kristínu fyrir konu og hún var prestsdóttur frá glæsilegu höfuðbóli á Auðkúlu í Húnaþingi. Jörundur bóndi á Hellu á Selströnd bjó aftur heima við sinn bláa Steingrímsfjörð, orti vers um veröld sína og flutti forsetanum:

Frjáls er þjóð og fallið helsi
fögur tíð á sumri blíðu
angan blóma yrkir langan
unaðsseið á fólksins leiðum.
Yljar sól um unnarhylji
andar blær um reistar Strandir.
Fagna af alhug fljóð og bragnar
frelsis merkisbera sterkum. JG

Einnig orti Jörundur um hvernig skást væri að komast af við heiminn en getur ekki setið á sér að hnýta utan um með glensborða:

Svefn á brá þér bætir þó
bölið sára og dags óró.
Eyðast tárin, eykst þér fró,
ári minn kári og korri ró. JG

Önnur er hér:

Mér er gæfan gjöful enn,
gyllir æfi vega.
Sína þæfa sumir menn
sokka hæfilega. JG

Síðasta vísan í spjallinu er úr ljóði Jörundar til forsetahjónanna:

Hér á Ströndum standa berar
standbergshallir í hverju fjalli
sorfnar ísi og sundur skornar
syngja hátt við veðrasláttinn.
Þangað hafa lýðir löngum
leitað styrks á tíðum myrkum
fjalls í eggjum eggjan snjalla
átt til dáða og bjargarráða. JG

Vísað er til:
Una Margrét/RUV1 talar um Fjárlögin: http://www.ruv.is/frett/tonsnillingarnir-og-fjarlogin
Til þín Drottinn: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=p0&ID=4721
Fast viðkletta: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=13611
Barningur Þorsteins: http://bragi.info/skag/visur.php?VID=16732
Úr heimi Jörundar: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=j0&ID=8435

Eldra stökuspjall:
Lífsgleði njóttu: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12647
Þeir urðu vinir á vondu ferðalagi: http://www.huni.is/index.php?cid=12589
Rökkrið sveipaði rauðum tjöldum að ranni mínum:http://www.huni.is/index.php?cid=12568
Túngarður í Tungunesi: http://www.huni.is/index.php?cid=12508
Pamfílar lukkunnar: http://www.huni.is/index.php?cid=12482

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga