Eyvindarstofa
Eyvindarstofa
Pistlar | 26. apríl 2016 - kl. 09:15
Lausamenn í Húnaþingi á tímum vistarbands
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Lausamenn í Húnaþingi á tímum vistarbands verður efni fyrirlesturs dr. Vilhelms Vilhelmssonar á Blönduósi lau. 30.4 kl. 14. Fyrirlesturinn mun fjalla um stöðu og hlutverk lausamanna í íslensku samfélagi á fyrri hluta 19. aldar, þegar tilvist þeirra var svo gott sem alfarið bönnuð. Tekin verða dæmi um fólk sem dæmt var fyrir lausamennsku í Húnaþingi og mál þeirra reifuð og velt vöngum um það hvort lausamenn hafi í raun verið álitnir átumein landsins velmáttar, líkt og Magnús Stephensen dómstjóri taldi, eða hvort þeir hafi gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu.

Sögufélagið Húnvetningur boðar til þessa fundar í Eyvindarstofu/Pottinum við Norðurlandsveg n.k. laugardag kl. 14. Haldinn verður aðalfundur félagsins. Áhugamenn eru hjartanlega velkomnir.

Upprifjun á aldargömlu sögukorni:
Meðal sagna sem geymst hafa frá síðustu öld er þátturinn Skroppið eftir meðulum. Þar segir Bjarni Jónsson á Bollastöðum frá ferðalagi sínu norður á Sauðárkrók 1914 þegar komið var fram undir jólaföstu og þurfti að sækja meðul handa Eyþóri á Syðri-Löngumýri en þau Pálína voru þá trúlofuð, en Bjarni var vinnumaður í Stóradal.

Blanda var komin á ís, en Svartá varð Bjarni að vaða í geirvörtur. Skarphéðinn og Halldóra bjuggu þá í Ytrakoti og fylgdi Skarphéðinn honum út að ánni og lánaði honum staf og reipi. Eftir baðið fór Bjarni upp í brekkuna, tók af sér skóna, velti sér í snjónum og reyndi að vinda úr fötunum áður en hann hraðaði sér af stað því byrjað var að dimma. Þegar hann fór upp Auðólfsstaðaskarð var orðið myrkt og þoka skall á hann í Litla-Vatnsskarði. Þegar Bjarni kom út að eyðikotinu Gvendarstöðum á Víðidal fann hann hvað hann var þreyttur og bleytan hafði þá þornað inn . Hann athugaði sporin sín, lagðist undir tóftarbrot og sofnaði örstutta stund og vaknaði miklu hressari. Bjarni átti kunningja á Krók sem hann fór til að bað að fylgja sér til Jónasar Kristjánssonar læknis. Læknirinn hafði þá verið sóttur fram að Goðdölum og Hansína kona hans var ófáanleg til að blanda sér í meðalaafgreiðslu fyrr en fokið væri í öll önnur skjól. Hún átti von á lækninum heim um nóttina.

Morguninn eftir var komin asahláka, suðaustanrok og rigning. Bjarni fer í læknishúsið og spyr eftir Jónasi lækni sem var ókominn, en frúin ætlaði að taka til meðulin ef hann yrði ekki kominn á hádegi og þannig fór. Hún afhenti  Bjarni meðulin og hann lagði af stað heimleiðis, náði svo vestur að Mörk á vökunni, en hélt áfram og fór að hugsa um Svartá þegar hann fór hjá Æsustöðum. Áin hafði rutt sig meðan hann var í ferðinni og hún var rúmlega í hné. En niður að Blöndu fékk hann fylgd Þorgríms í Syðra-Tungukoti sem hafði meðferðis reipi og Bjarni hélt í það til öryggis meðan hann hljóp í spretti yfir skörina og skilaði af sér meðulunum. Pálína vildi borga honum fyrir ferðina en enga greiðslu vildi hann taka. Sjúklingurinn fór svo að hressast eftir að meðulin komu og ísspöngin var farin af Blöndu daginn eftir.

Hér neðar er skráður úrdráttur úr sögunni en Jón Eyþórsson frá Hamri var vinur Bjarna og nágranni frá æskuárum þeirra og gaf út Hrakninga og heiðarvegi í nokkrum bindum og setti þessa frásögn Bjarna í 3. bindi bókaflokksins. 

Hér er lýsing Bjarna sjálfs af því þegar hann óð Svartá, en Skarphéðinn bóndi í Ytrakoti fylgdi og liðsinnti Bjarna:

„Svo gekk ég út göturnar að Ytra-Tungukoti. Þar bjuggu þá Skarphéðinn Einarsson og Halldóra Jónsdóttir. Ég ber þar á dyr. Til dyra kom Skarphéðinn. Ég spyr hann hvernig Svartá sé yfirferðar. Hann segir að hún sé með öllu ófær, það séu komnar að henni miklar skarir og svo renni hún í kaststreng á milli þeirra. Ég bið hann koma með mér út að ánni.„Það get ég,“ segir hann, „en mér þykir ótrúlegt, að þú komist yfir hana.“Þegar við förum af stað frá Kotinu, tekur Skarphéðinn með sér stóra og sterka tréstöng. Ég segi honum að það sé best að hafa reipi líka. Það finnst honum rétt og nær í það. Svo göngum við út að ánni. Þegar að henni kom, ólgaði hún mikið og var straumþung milli skara. Ég fékk stöngina og mældi dýpið við skörina og mundi vatnið ná mér í geirvörtu. Svo tek ég í enda á reipinu hjá Skarphéðni og fer ofan af skörinni og styð mig við stöngina og óð hægt yfir ána. Þar sem hún var dýpst, kastaðist vatnið upp á öxl mér. Ég hefði alls ekki staðið, ef ég hefði ekki haft jafngóða og sterka tréstöng að styðja mig. Þegar ég kom upp á skörina hinu megin, dró Skarphéðinn til sín reipið og ég fleygði til hans stönginni.“

Nafnaskýringar: Í Ytra-Tungukoti var reist um miðja öldina steinsteypt tveggja hæða íbúðarhús og hét þar í Ártúnum, hálfu landmeira býli en gamla kotið og náði yfir hálflendu gamla höfuðbólsins í Finnstungu. Syðra-Tungukot fékk nafnið Brúarhlíð en Blöndubrúin fremri var byggð yfir jökulelfuna litlu síðar en Ártúnabærinn.

Vísað er til: Jón Eyþórssonhttps://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Ey%C3%BE%C3%B3rsson
Blöndudalur: https://is.wikipedia.org/wiki/Bl%C3%B6ndudalur

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga