Pistlar | 13. október 2016 - kl. 09:41
Komdu og vertu með í skátunum
Frá Alexöndru, Maríu Jónu, Matthildi, Páli Rúnari og Snjólaugu

"Skátar fara í útilegur og ferðalög, þeir syngja og sprella, spila tónlist og klífa fjöll, leika leikrit og sigla kajökum, smíða, mála klippa, tálga, dansa og byggja snjóhús - viðfangsefnin eru jafn fjölbreytt og hugurinn girnist. Það eru nefnilega þátttakendurnir sjálfir, í sínum litlu hópum, sem ákveða hvað þeir vilja fást við. Hvernig væri nú að þú myndir koma og vera með?"

Mánudaginn 11. október mættu fulltrúar frá Bandalagi íslenskra skáta hingað á Blönduós með kynningu á skátastarfinu fyrir börn fædd 2005 og meðan þau skemmtu sér úti með skátaforingjunum í ýmsum leikjum voru foreldrar á kynningarfundi um starfið og uppbyggingu þess hérna á Blönduósi.

Ákveðið var að fara af stað með 6-8 vikna kynningarnámskeið fyrir börn fædd 2004 og 2005 og mun fyrsti skátafundurinn vera í húsi Björgunarsveitarinnar mánudaginn 17. október og hefjast klukkan 17:00 - 18:30. Verð fyrir námskeiðið verður 2500 kr og fá börnin fallegan skátaklút að námskeiðinu loknu. Við viljum einnig hvetja sem flesta foreldra til að mæta með börnunum á þennan fund. Á fundina munu mæta með okkur fulltrúar skátahreyfingarinnar til að sýna okkur hvernig starfið fer fram og stýra þau skátafundunum að mestu. Í skátastarfinu læra einstaklingar að verða sjálfstæðir, virkir, ábyrgir einstaklingar og láta gott af sér leiða í samfélaginu. Við lærum að virða og þekkja náttúruna, takast á við ýmis verkefni og lifa sig inn í ævintýrin sem framundan eru.

Við teljum að skátastarfið verði góð viðbót við það öfluga félags- og íþróttastarf sem er nú þegar í boði fyrir börn og unglinga hérna á Blönduósi. En eins og allir vita þá krefst allt félagsstarf þátttöku foreldra og bæjarbúa.

Við óskum því eftir því ef einhverjir gamlir skátar (Eitt sinn skáti, ávallt skáti) vilja koma og vera með okkur í því að endurvekja Skátafélagið Bjarma og að sjálfsögðu tökum við vel á móti öllum þeim sem vilja hefja starf sitt með skátahreyfingunni. Til að geta orðið flokksforingi þarf einstaklingur að hafa náð 18 ára aldri en engin krafa er um að hafa verið skáti, öll komum við inn í starfið til að læra.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á fundinum á mánudaginn og komandi mánudaga

Alexandra, María Jóna, Matthildur, Páll Rúnar og Snjólaug

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga