Pistlar | 21. október 2016 - kl. 09:26
Skilum auðu
Eftir Guðmund St. Ragnarsson

Í síðustu viku horfði ég á kosningasjónvarp Stöðvar 2 um Norðvesturkjördæmi með oddvitum stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram í kjördæminu. Sem gamall Húnvetningur lagði ég við hlustir en ég get ekki sagt haft að ég hafi haft mikið gaman að. Í þættinum var mikið fjallað um vanda Vestfjarða og Vestfirðinga. Einnig var talsvert rætt um Skagafjörð og skagfirska “efnahagssvæðið”. Ég heyrði hins vegar ekki mikið minnst á Húnaþing (hvort sem það er Húnaþing vestra eða Austur-Húnavatnssýsla) eða hvort það þyrfti að huga að einhverju sérstöku í Húnaþingi. Það fór í það minnsta ákaflega lítið fyrir áhyggjum af stöðu Húnaþings í téðum umræðuþætti. Þáttastjórnandinn var heldur ekkert sérstaklega vel að sér í landafræði eða samfélagsumræðunni og taldi að það hefði komið til tals að byggja álver í Skagafirði.

Hafa má áhyggjur af fólksfækkun í héraðinu og stöðnuðu atvinnulífi. Ég tel raunar að staðan í Húnaþingi sé ekkert minna alvarleg en á Vestfjörðum þótt nákvæmlega ekkert fari fyrir umræðu um Húnaþing. Mér virðist sem það sé ekki raunverulegur áhugi hjá stjórnmálaflokkunum (hvort sem þeir teljast vera til hægri, til vinstri eða á miðjunni) á Húnaþingi og stöðunni þar. Ég tel að það hjálpi heldur ekki að Húnvetningar hafa undanfarin ár ekki haft og munu ekki hafa neinn fulltrúa á Alþingi Íslendinga næsta kjörtímabil.

Ég skora á Húnvetninga að sýna óánægju sína með stöðu Húnaþings með því að skila auðu í komandi kosningum og mótmæla þannig því algjöru afskiptaleysi sem stjórnvöld á Íslandi og þingmenn kjördæmisins hafa sýnt og sýna í dag Húnvetningum og Húnaþingi. Þannig er hægt að sýna með táknrænum hætti að Húnvetningar hafa rödd sem hlusta verður á og það sé löngu kominn tími til afskipta hins opinbera af stöðunni þar.

Húnaþingi allt.
Guðmundur St. Ragnarsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga