Blönduskóli
Blönduskóli
Pistlar | 19. janúar 2015 - kl. 20:03
Áramótakveðja til starfsfólks Blönduskóla
Eftir Sigurlaugu Gísladóttur

Nú er rétt rúmt ár síðan við fjölskyldan fluttum hingað á Blönduós og má segja að flestum hafi fundist við snargalin að gera slíkt. Og það má vel vera að við séum það :).

En sú snargalna ákvörðun hefur heldur betur skilað sér fyrir okkur og yngsta son okkar sem hefur blómstrað í skólanum ykkar/okkar, ekki bara námslega heldur líka það að líða vel, því það er hreint ekki sjálfgefið.

Skólakerfinu er ætlað að vera með einstaklingsmiðað nám og svo heitir það í námsskránni en það er svo allt önnur ella hvernig starfsfólki tekst að framkvæma það.

Og allt stendur þetta og fellur með því sama starfsfólki  því engu máli skiptir hver stefnan og markmiðin eru, hversu góð þau eru, ef ekki er fólk með vilja eða getu til að framkvæma það.

Ég hringdi í nokkra skóla áður en ákvörðun var tekin hvert skyldi haldið og því er ekki að leyna að Skagafjörður mínar gömlu æskuslóðir komu sterklega til greina, en örlögin  hafa sennilega gripið í taumana því þar fengum við ekki húsnæði sem hentaði okkur og svörin frá skólanum hér stóðu líka uppúr, og það var þá allavega stutt á fornar slóðir svo við slógum til og hingað erum við komin.

Við höfum  aldrei upplifað það áður að skólastjórnendur hafi samband af fyrra bragði og spyrji hvort ekki sé rétt að nálgast eða útvega þetta eða hitt tækið fyrir strákinn okkar        ( tekið skal fram að hann er lögblindur og þarf því sér búnað að nokkru leiti) hef alltaf þurft að sækja fast eftir öllu slíku og oft gengið illa, og því  voru  það  óneitanlega mikil viðbrigði að skólin hefði frumkvæði, en mikið óskaplega var notalegt að upplifa það. Það er líka mjög svo notalegt að þurfa ekki að vera með varan á sér, um það hvort hlutirnir séu í lagi eður ei.  

Það var líka alveg ómetanlegt að í desember þegar við vorum nýkomin hér þá bankaði hér hjá okkur umsjónarmaður félagsmiðstöðvar og bauð syninum í skoðunarferð um félagsmiðstöðina svo hann gæti lært að rata um áður en húsið fylltist af fólki, slík var hugulsemin og sátum við hjónin nánast hljóð í langan tíma eftir að þeir félagar héldu í ferðinna  og þorðum varla að trúa þessu, held að við bæði höfum laumast til að klípa okkur til að vera viss um að okkur væri ekki að dreyma.

Einnig var slíkur skoðunartúr tekin um íþróttahúsið sem var ómetanlegt.

Til að setja punktinn yfir iið fær drengurinn líka frábæran umsjónarkennara, hana Lilju sem við teljum  algjöran gullmola, sem og allir aðrir sem við höfum hitt og átt samskipti við í skólanum  þetta ár  sem við erum búin að vera.

Ég hef verið mjög dugleg að gagnrýna þegar þannig stendur á í gegnum árin enda búin að fara með 4 börn í gegnum grunnskóla síðan árið 1987 og erum við því á okkar síðustu metrum á þeim vettvangi, og hefur  mörgum oft fundist nóg um lætin í mér á þeim árum,  og finnst mér því eðlilegt að koma því á framfæri þegar virkilega er vel staðið að hlutunum og það hefur starfsfólk Blönduskóla svo sannarlega gert.

Við fjölskyldan óskum ykkur gleðilegs nýs árs með innilegri þökk fyrir árið sem er nýliðið.

Með kveðju
Sigurlaug Gísladóttir
Urðarbraut 18
Blönduós

 

 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga