Pistlar | 17. maí 2015 - kl. 18:50
Merkar fornleifar finnast í Húnaþingi
Eftir Guðmund St. Ragnarsson

Því miður er fyrirsögnin í þessum pistli ósönn. Svo best ég veit hafa ekki verið fornleifarannsóknir að neinu marki í söguhéraðinu Húnaþingi svo langt sem ég man eftir. Aðrir verða þá að leiðrétta mig því ég verð að viðurkenna fáfræði mína á þessu sviði.

Undanfarin ár les ég reglulega um fornleifarannsóknir í öllum landshlutum. Af einhverjum ástæðum virðist Húnavatnssýsla vera útundan (hringir sú staðreynd einhverjum bjöllum?) þegar kemur að áhuga fræðimanna á vegum ríkisins að rannsaka hið liðna. Það er einkennilegt í ljósi sögunnar. Það hafa verið umfangsmiklar rannsóknir um Skagafjörð þveran og endilangan ef litið er til austurs og sama á við um Borgarfjörð þegar litið er til suðurs. Hverju veldur?

Fornleifarfundur í dag getur styrk ferðaþjónustu morgundagsins. Nú er sumarið að hefjast og gleðjast þá sérstaklega þeir sem stunda knattspyrnu en ekki síður þeir sem reka ferðaþjónustu. Væri ekki ráð fyrir háttvirta ráðamenn í stjórnsýslunni í Húnaþingi og ferðaþjónustuaðilum að benda þeim sem málið varðar í Reykjavík á þetta hafi það ekki þegar verið gert? Eða hvað? Er einhver stefnumörkun í gangi í ferðaþjónustunni í Húnaþingi? Er stjórnsýslan að styðja við bakið á þeim sem reka ferðaþjónustu á svæðinu? Spyr sá sem ekki veit.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga