Blönduóskirkja
Blönduóskirkja
Pistlar | 07. mars 2016 - kl. 10:46
Stökuspjall - Lífsgleði njóttu
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Níræður karlakórinn Húnvetninga hefur bætt fjöður í hatt sinn á síðustu dögum. Síðasta laugardag í febrúar söng hann yfir Runólfi frá Hvammi, góðum félaga og fyrrum formanni kórsins. Athöfnin hófst með söng kórsins á fimm uppáhaldslögum Runólfs en alls söng kórinn 13 lög við útförina sem var í Blönduóskirkju á björtum og sólríkum degi. Viku síðar, fyrsta laugardag í mars hélt kórinn 3 söngskemmtanir syðra, vel heppnaðar með hljómsveit heiman úr héraði, 2 söngkonum, 2 flautuleikurum og trompetleik Skarphéðins skólastjóra á Blönduósi. Vísnamál voru uppi höfð og sönggleði sat í öndvegi. Organistinn og Fljótamaðurinn, Rögnvaldur Valbergsson, á góðan þátt í gengi kórsins síðustu árin með útsetningum á dægurlögum sem kórinn flytur síðan með söngkonum og hljómsveit.

Afi útsetjarans, Hannes á Melbreið, setti saman hringhendu:

Stormur þýtur, stynur grund
stráin brýtur niður.
Enginn lítur unaðsstund
allur þrýtur friður. HH

Önnur hringhenda og sjóferðavísa er kennd Þingeyrabóndanum, Jóni Ásgeirssyni:

Ei mig hræðir aldan stinn
oft sem næði brýtur,
því í hæðum hugurinn
hafnir gæða lítur. JÁ

Hákarlaskipið Ófeigur er varðveitt í Byggðasafninu á Reykjum og sameiginlegt er það Fljótum og Norður-Ströndum að þaðan var sótt í hákarlaveiðar. Kristján Ívarsson orti vísur um hákarlaformennina sem réru frá Gjögri, í seinni vísunni lýsir hann eigin formennsku:

Sönglar tog en svignar rá
sviðum bogar kólgan á,
ginnarsloga gautar þá
Gjögursvogum sigla frá. 

Gaufar tvistur sels um svið,
sjaldan fyrstur út á mið,
hrottabyrstur hlyni við,
heitir Kristján, manntetrið. KÍ

Fyrir hundrað árum var gefið út íslenskt söngvasafn, en þessa atburðar er nú minnst með þáttaröð í útvarpinu í umsjón Unu Margrétar Jónsdóttur. Sum þessara laga eru enn sungin og fyrsti formaður karlakórsins, Tryggvi í Tungu, átti þar sitt uppáhaldslag: Lífsgleði njóttu við texta Steingríms Thorsteinssonar.

Vísað er til:

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps:https://www.facebook.com/karlakorbolstadarhlidarhrepps/
Til hvers karlakór: http://stikill.123.is/blog/2016/02/25/744889/
Sjötta febrúar 1948 fór karlakórinn vestur yfir Blöndu, að Svínavatnskirkju til að syngja yfir Önnu á Ásum, sjá dagbók Jónasar Tryggvasonar:http://stikill.123.is/blog/2008/11/30/324438/
Hannes á Melbreið í Fljótum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=9111
Sjóferðavísa Jóns á Þingeyrum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26054
Kristján Ívarsson: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=17557
Fjárlögin, níundi og síðasti þáttur var fluttur á sunnudagsmorgni 6. mars s.l. http://www.ruv.is/nyjast/hin-einu-sonnu-fjarlog

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga