Blönduóskirkja
Blönduóskirkja
Pistlar | 19. febrúar 2014 - kl. 18:07
Organistapistill - Breiðir greinar móti sól
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Bjartir morgnar lengjast ört með hverri viku, vorið nálgast, lóur sáust á Seltjarnarnesi s. l. sunnudag, hvort sem þær eru svo nýjar eða gamlar, næsta sunnudag hefst góa með konudegi og rithöfundur, bóndi og kona framan úr Blöndudal stígur í stólinn hér í Blönduóskirkju og deilir með okkur hugsunum sínum.

Um skólann sinn orti önnur kona:

Unga mey í æskublóma
einmitt hér skal rödd þín hljóma
arfleifð þína að þakka og meta
þennan stofn með krónu og rót.

Ljóðið orti ein af kennslukonunum við Kvennaskólann á Blönduósi, Ingibjörg Benediktsdóttir 1910-1912 en hún orti minni gamla skólans síns er skólinn varð sextugur 1939:

Margt sem ömmu eða móður
innst í hug var falinn gróður
stendur nú með blöð og blóma
breiðir greinar móti sól.
IB

Í skrá yfir kennslukonur skólans birtast mörg bæjanöfn úr heimahéraðinu – og öðrum landshlutum. Margar konur ílentust hér innan héraðs eftir veru sína við skólann. Má þar nefna Sólveigu Benediktsdóttur sem var forstöðukona skólans 1937-47, kenndi við unglingaskólann 1948-53 og aftur við Kvennaskólann 1960-78. Sólveig var lengi organisti við Blönduóskirkju, bjó við Árveginn með manni sínum Óskari Sövik rafveitustjóra og dóttur þeirra Ragnheiði, síðar kennara við Varmahlíðarskóla.

Önnur forstöðukona, sem enn starfar meðal Húnvetninga, Aðalbjörg Ingvarsdóttir var skólastjóri Kvennaskólans og kennari í hálfan annan áratug auk þess að vera kennari við grunnskólann. Aðalbjörg hefur haft forystu um að viðhalda menningarstarfi í húsi Kvennaskólans á Blöndubakka þar sem venjulegt skólastarf hefur nú verið lagt niður.

Í Blönduskóla, grunnskólanum á Blönduósi, eru sumar þeirra greina kenndar sem áður tilheyrðu húsmæðraskólum landsins. Úr kennarastéttinni koma líka góðir söngkraftar sem kirkjan hér á Blönduósi og kirkjugestir njóta góðs af, hvort sem er að hlýða á söng þeirra eða taka undir með þeim í guðsþjónustum.

Vertu velkomin til kirkju kl.11 á sunnudaginn, fyrsta góudag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga