Blönduóskirkja
Blönduóskirkja
Pistlar | 10. mars 2014 - kl. 21:20
Organistapistill
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Gæt mildingur mín
mest þurfum þín
helst hverja stund
á hölda grund.

Kolbeinn Tumason yrkir miskunnarbæn og ákallar Guð en hann féll hinn 9. sept. 1209 í bardaga heima á Hólum við menn biskups.

Þökk sé skáldinu og ritunarfíkn Íslendinga frá fyrstu tímum að við íslenskir eigum þennan átta alda sálm sem enn má syngja og menn skilja nánast hvert orð. Hann er að finna í sálmabókinni, númer 308.

Með lagi Þorkels Sigurbjörnsson hefur sálmurinn numið nýjar lendur og hann mun hljóma í Blönduóskirkju í guðsþjónustu á sunnudaginn kl. 11.

Kolbeinn skáld á Víðimýri átti mestan þátt í gera Guðmund Arason að biskupi en deila þeirra varð líka harðari en annarra höfðingja, enda urðu þeir venslamennirnir að deila löndum í Skagafirði.

Fræðimaðurinn Hermann Pálsson telur að Kolbeinn hafi ort kvæðið eftir misheppnaðan sáttafund heima á Víðimýri þremur árum fyrr og segir:

„Þegar vér lesum þetta kvæði eftir allar þessar aldir og minnumst þess sem Kolbeinn varð að þola á Mauritiusmessu 1206, þá getum vér látið oss til hugar koma, hvernig honum hefur verið í skapi um kveldið. Þegar úti er um sættir og bannfæring vofir yfir, hverfur Kolbeinn aftur til kirkju og rifjar upp fyrir sér vonbrigði dagsins. Biskup hefur dæmt hann hörðum dómi, en skáldið áfrýjar til æðra valds. Höfðinginn lýtur ekki biskupi Hólastóls, en úti í kirkjunni á Víðimýri stendur hann fyrir hásæti herra síns og krýpur honum. Kolbeinn er þræll hans. Hann hefur ekki skap til að beygja sig fyrir hinum óþjála kirkjuhöfðingja Norðlendinga, en þeim mun betra á hann með að sýna Guði fullkomna undirgefni. Með óhlýðni sinni við kirkjuyfirvöld hefur Kolbeinn framið dauðlega synd en þó er það með heiðríkum huga, að hann færir Guði játningar og bænir á dimmu haustkveldi, hinn tuttugasta og annan september árið 1206:

Heyr himnasmiður
hvers skáldið biður.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga