Pistlar | 18. mars 2014 - kl. 22:19
Húsnæðisvandi ungs fólks
Eftir Ástu Berglindi Jónsdóttur

Á síðustu árum hefur leiga og kaupverð á íbúðum farið töluvert hækkandi. Lánin sem fólk tók hækka og peningarnir hverfa. Þetta gerir það að verkum að ekki er auðvelt fyrir ungt fólk að finna sér húsnæði sem það ræður við að borga. Þegar kemur að framhaldsmenntun þurfum við að leita út fyrir okkar heimasveit og það er ekki auðvelt fyrir alla. Einstaklingar þurfa að finna sér heimili, því húsaskjól er ein af grunnþörfum mannsins. En þá komum við að því, hefur þessi einstaklingur efni á því að borga fyrir sínar grunnþarfir? Námslán duga ekki fyrir leigu á þeim mánuðum sem skólinn stendur yfir, og þá á eftir að borga fyrir mat og fleiri þætti sem þarf til þess að lifa venjulegu lífi.

 

Kennarar hamra á því við nemendur að nám sé 100% vinna sem þurfi að stunda til þess á ná markmiðinu og klára námið. Þrátt fyrir það vinna lang flestir nemendur með skóla til þess að geta borgað reikningana. Álagið á námsmenn er gífurlegt til þess að lifa af, því námslánin duga varla fyrir reikningunum. Ég tala nú ekki um þegar að ungt fólk er að byrja að stofna fjölskyldur.

 

Ég tel að menntun fylgi mikill máttur og ekki síst  fyrir lítil samfélög úti á landi. Grunn- og leikskólakennarar, sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar eru, svo að ég nefni dæmi, mjög mikilvæg fyrir lítil bæjarfélög. Jafnvel sértækt nám eins og í listum og íþróttum geta gert svo mikið. Ljóst er að eitthvað þarf að gera til þess að létta  undir með fólki sem hefur ekki í foreldrahús að sækja á meðan á námi stendur, og það er fólkið utan af landi.

        

Því spyr ég: Eru þingmenn Norð-vestur kjördæmis að vinna að lausnum á húsnæðisvanda unga fólksins, sem vonandi í framtíðinni á eftir að snúa aftur heim að námi loknu og efla þannig atvinnulíf og jafnvel atvinnusköpun í sinni heimabyggð?

 

Ásta Berglind Jónsdóttir

Nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga