Pistlar | 02. maí 2014 - kl. 18:23
Menntun í heimabyggð “ stöndum saman
Eftir Ásdísi Ýr Arnardóttur umsjónarmann Dreifnáms í A-Hún.

Fyrir ári síðan var ákveðið að fara af stað með verkefnið „Dreifnám í A-Hún“. Dreifnám í A-Hún er samstarfsverkfefni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Félags- og skólaþjónustu A-Hún. Starfsemi dreifnámsins er tvíþætt, annars vegar er um að ræða hefðbundið bóknám sem kennt er í dreifnámi og hins vegar aðstöðu til fjarnáms í öllum fjarnámsáföngum sem Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra býður upp á hverju sinni.

Nú er fyrsta starfsári dreifnámsins að ljúka og við sem stöndum að því erum sátt með árangur vetrarsins. Alls hófu 17 nemendur nám í dreifnámi og munu 16 ljúka námi nú í vor og er árangur þeirra flestra er góður. Gott aðhald hefur veitt nemendum mikinn meðbyr í námi og þeir nemendur sem hafa átt erfiða skólagöngu að baki hafa margir hverjir blómstrað í dreifnáminu. Sú aðstaða sem hægt er að bjóða nemendum upp á, persónuleg aðstoð í námi, námslegt aðhald og nálægð við foreldra eru án efa þættir sem hafa mikil áhrif á góðan árangur og vellíðan.

En einn góður árgangur er ekki nóg, við þurfum að standa saman til að verkefnið haldi velli. Foreldrar þurfa að standa saman og hvetja börn og ungmenni til að sækja nám í heimabyggð nú þegar tækifæri býðst. Nágrannar, vinir og ættingjar eiga einnig að hvetja þá til náms sem hafa  hug á námi en hafa ef til vill hætt í framhaldsskóla, eða aldrei byrjað. Það er sameiginleg ábyrgð okkar í A-Hún að stuðla að bættu menntunarstigi svæðisins með því að nýta þau tækifæri sem boðið er upp á.

Nú í haust verða í boði alls 16 áfangar í dreifnámi sem tilheyra hefðbundnu bóknámi sem mögulegt er að nýta til frekara náms, hvort sem er bóknáms eða verknáms. Auk þessa stendur íbúum svæðsins til boða fjöldinn allur af áföngum í fjarnámi. Umsóknarfrestur annarra en 10. bekkinga rennur út 31. maí en lokafrestur til endurskoðunar skráninga nemenda í 10. bekk er dagana 5. til 10. júní.

Stöndum saman, veljum og verjum þennan milkvæga möguleika til menntunar í heimabyggð!

Ásdís Ýr Arnardóttir, umsjónarmaður Dreifnáms í A-Hún.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga