Pistlar | 29. maí 2014 - kl. 20:18
X-Blönduós
Eftir Zophonías Ara Lárusson sem skipar 4. sæti L-listans á Blönduósi

Í þessum pistil ætla ég að fara yfir nokkur mál sem á mér brenna ásamt því að fara örlítið yfir sviðið á síðasta kjörtímabili.

 

Ég hef setið í bæjarstjórn og starfað í bæjarráði sl. fjögur ár og þar af síðustu tvö ár sem formaður bæjarráðs. Vinnan í bæjarráði hefur gengið mjög vel á kjörtímabilinu. Þar hefur fólk verið að vinna af heilum hug sem einn hópur, hvort heldur meiri eða minnihluti og í langflestum tilfellum hefur verið hægt að ræða sig niður á sameiginlega niðurstöðu. Í því ljósi má nefna það að fjárhagsáætlun og ársreikningur Blönduósbæjar síðustu tveggja ára hafa verið samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum í bæjarstjórn. Þess háttar vinnubrögð tel ég nauðsynleg í ekki stærra samfélagi sem Blönduós er og mun ég leggja mitt af mörkum í áframhaldandi góðri samvinnu meirihluta og minnihluta nái ég til þess kjöri.

 

Það er þó alltaf þannig að betur má gera í einhverjum málum og ekki gengur allt upp sem maður ætlar sér og er það vonbrigði að ekki hafi komið til þeirrar stóru atvinnuuppbyggingar sem vonir stóðu til. Mikil vinna hefur verið lögð í þessi mál og hef ég ennþá mjög mikla trú á því að einn daginn verði það að veruleika í einhverri mynd. Við munum áfram berjast fyrir atvinnuuppbyggingu ásamt því að hlúa að því sem fyrir er.

 

Einnig tel ég að það þurfi að bæta upplýsingaflæði frá bæjaryfirvöldum til íbúa og einnig það að fólk hafi betri aðgang að kjörnum fulltrúum bæjarins með einhverjum hætti og hef ég viðrað þá hugmynd að koma á fót viðtalstímum hjá bæjarráði þar sem fólk gæti komið og átt samtal við bæjarráð á fyrirfram ákveðum tímum án þess að fyrir liggi formlegt erindi.

 

Í byrjun kjörtímabilsins var farið í óhjákvæmilegar aðhaldsaðgerðir eftir byggingu sundlaugarinnar. Afrakstur þessarar vinnu erum við svo að sjá í dag þar sem viðsnúningur hefur orðið á fjármálum bæjarins, þökk sé starfsfólki Blönduósbæjar.

 

Aukið fjárhagslegt svigrúm er til framkvæmda á Blönduósi og þess má geta að síðastliðin þrjú ár hafa framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins verið í lágmarki en á árinu 2014 er gert ráð fyrir framkvæmdum að upphæð 30 milljónum. Helstu verkefni ársins eru lagfæring á sýslumannsbrekkunni, fuglaskoðunarhúsið, endurnýjun sjóvarna, viðhald á félagsheimili og Blönduskóla.

 

Í nýsamþykktum ársreikningi Blönduósbæjar fyrir árið 2013 er í fyrsta sinn í 6 ár hagnaður af rekstri og í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 er einnig gert ráð fyrir hagnaði.


Skuldaviðmið sveitarfélagsins er samkvæmt ársreikningi 138,8% í árslok 2013. Með áframhaldandi ábyrgri fjármálastjórnun mun sveitarfélagið verða komið fyrir vind gagnvart eftirlitsnefnd með sveitarfélögum á næstu misserum, mun fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.


Við viljum halda álögum á barnafólk sem lægstum og því voru gjaldskrár leikskóla, skóladagheimilis og skólamáltíðir ekki hækkaðar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014.

Ágætu kjósendur þar sem ég skipa baráttusæti L listans fyrir áframhaldandi meirihluta, hvet ég ykkur til þess að setja x við L á kjördag fyrir áframhaldandi góðri samvinnu og uppbyggingu Blönduósi til heilla.



Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga