Pistlar | 30. maí 2014 - kl. 07:00
Um bæjarstjóramál og fleiri mál
Eftir Hörð Ríkharðsson sem skiptar 1. sæti J-listans á Blönduósi

Margt er skrafað og skeggrætt í aðdraganda kosninga sem eðlilegt er. Eitt af því sem menn velta vöngum yfir er hver muni skipa embætti bæjarstjóra.  Ef J-listinn vinnur þessar kosningar þá munum við setjast yfir það verkefni að reka þetta sveitarfélag með þeim hætti sem við viljum gera það. Við munum fara í gegnum verkefnin og við þá vinnu verða skipurit, starfslýsingar, ráðningarsamningar stjórnenda, laun og almennt verklag til endurskoðunar. Á síðasta þremur og hálfa árinu hafa fimm starfsmenn látið af störfum á bæjarskrifstofunni. Starfsmannavelta er kostnaðarsöm. Þessir starfsmenn hafa margt fram að færa um það hvernig haga megi stjórnun og rekstri sveitarfélagsins og hyggjumst við leita til þeirra um góð ráð. Í þessari vinnu munum við að sjálfsögðu ræða við núvernadi stjórnendur sveitarfélagsins og þá mun það skýrast hvort að báðum aðilum mun þykja vænlegt að ganga til samstarfs, hvort semjast muni um starfslýsingar, verkaskiptingu, um kaup og kjör og hvernig vænlegast verði að standa að og manna yfirstjórn sveitarfélagsins. Virkari upplýsingamiðlun til íbúa þarf einnig að koma til sögunnar. Við finnum fyrir kröfu um breytingar.

Annað mál hefur borið á góma en það er stefnubreyting L-listans í málefnum Heilbrigðis-stofnunarinnar. Síðastliðið haust voru samþykkt kjarnyrt mótmæli við fyrirhugaðri sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi á vettvangi Byggðasamlags um atvinnu og menningarmál, þar sem bæjarstjóri er í forsvari og L-listi á fulltrúa. Síðan tóku sveitarstjórnir undir þau mótmæli á sínum vettvangi. Best hefði verið ef Byggðasamalag um atvinnu og menningarmál hefði áfram forystu í málinu fyrir hönd hagsmunaaðila í héraði en á þeim vettvangi hefur ekki verið fundað síðan í desember enda þótt nú gangi maður undir manns hönd að vekja athygli á mikilvægi atvinnumála í héraði. Mikilvægt er að hagsmunum stofnunarinnar og héraðsins sé gætt með styrkum hætti. Það fréttist af fundahöldum Skagfirðinga með ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra um þessi mál og ólíklegt að verið sé að ræða hvernig verja megi starfsemina á Blönduósi.

Það er hollt og gott að dreyma stóra drauma m.a. um gagnaver og bíódísil, en hafa þarf í huga að áður en slík verkefni eru í hendi þarf margt að ganga upp og gríðarleg vinna og öflun mikilla fjármuna þarf að eiga sér stað. Á meðan sú vinna á sér stað þarf að leggja aukna áherslu á smærri rekstur og raunhæfari verkefni sem t.d. eru líkleg til að henta í þær byggingar sem hér standa auðar og geta nýtt sér mannskap, þekkingu og færni sem til staðar er í héraði.

 

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga