Pistlar | 30. maí 2014 - kl. 15:52
Það sem skiptir máli
Eftir Magnús “lafsson frá Sveinsstöðum

Það sem skiptir máli í kosningunum hér í A. Hún á laugardaginn er hvort samþykkt verður í Húnavantshreppi að stefna að sameiningu við önnur sveitarfélög eða ekki. Báðir listarnir í þeim hreppi hafa á stefnuskrá sinni að fara að vilja íbúa. Verði sameiningu hafnað verður allt óbreytt. Sama hvor listinn fær meirihluta. Það verður ekkert svigrúm til nokkurs annars en halda í horfinu og stærsti hluti tekna sveitarfélagsins fer í að hlú að skólastarfinu og gera það besta sem hægt er fyrir lítinn en góðan skóla. Sem betur fer er metnaður í þá átt, en sífellt fækkar börnunum og samkvæmt tölum Hagstofunnar er stutt í að skólaskyld börn í hreppnum verða innan við 50, því miður.

Niðurstaða þessara kosninga í Húnavatnshreppi hefur áhrif í öðrum sveitarfélögum. Verði sameiningu hafnað í Húnavatnshreppi er engin sameining í kortunum í náinni framtíð og við hjökkum áfram álíka sundurleit og við höfum verið. Auðvitað eru góðar hugmyndir á stefnuskrá framboðanna, en það hafa fyrr verið gefnar væntingar fyrir kosningar. Átti ekki að koma gagnaver á líðandi kjörtímabili og nú er verið að kanna grundvöll fyrir bíódiselverksmiðju. Einu sinni voru væntingar um að orkan frá Blöndu lyfti atvinnulífi í héraði og svo mætti lengi telja.

Talandi um gagnaver og orkuna frá Blöndu var í vetur samþykkt þingsáliktun á Alþingi um að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa. Þar var bæði nefnd orkan frá Blöndu og gagnaver á Blönduósi. Samkvæmt fréttablaðinu Feyki hefur ríkisstjórnin skipað sérstaka landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra til að koma með tilllögur sem miða að því að efla byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og efla fjárfestingu á svæðinu. Formaður nefndarinnar, ágætur skagfirðingur, segir í sama blaði að það sé afar mikilvægt fyrir íbúa Skagafjarðar og Norðurland vestra að þetta mál hafi náðst í gegn því svæðið hafi verið skilið eftir.

Hvað er hér í gangi. Hefur ekki eitthvað misfarist hjá sveitarfélögum í A. Hún í þessu máli eða er þetta allt ríkisstjórninni að kenna? Upphaflega tillagan var um samstillt átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýlsu að efla atvinnulíf. Án þess að vita í raun nokkuð um málið segir mér svo hugur um að sundraðar sveitarstjórnir í héraði hafi ekki fylgt þessu máli eftir. Hefði ekki verið eðlilegt að Austur-Húnvetningur yrði formaður þessarar nefndar og hefði slíkt ekki gerst ef sýslan hefði verið eitt öflugt sveitarfélag og fylgt málinu af þunga? Spyr sá sem ekki veit. Ég er allavega ekki í vafa um að okkar ágætu nágrannar í austri hafi farið á fullt þá fyrrnefnd þingsályktun kom fyrst til umræðu að útvíkka hana svo hún næði yfir meira en A- Hún. Ætli niðurstaðan verði að gagnaver rísi í Skagafirði, enda segir formaður nefndarinnar í fyrrnefndu blaðaviðtali:  „Þetta er stórt mál, því hér hafa orðið afskaplega litlar stórfjárfestingar síðan um 1980 þegar Steinullarverksmiðjan var reist“.

Ég tók sæti í sveitarstjórn fyrir 40 árum og sat þar í 8 ár. Á þeim tíma var rætt um nauðsyn þess að efla sveitarstjórnastigið og styrkja þannig aðkomu heimamanna til að hafa áhrif í stjórnkerfinu. Þá voru Húnavatnssýslur, Skagafjörður og Siglufjörður eitt kjördæmi með góðum styrk á alþingi. Síðan þá hafa áhrif Húnvetninga á alþingi minnkað verulega m.a. með stækkun kjördæma. Örlítið skref var stigið á sveitarstjórnarstiginu með sameiningu Engihlíðarhrepps við Blönduós og síðar annarra 5 sveitahreppa í einn, en meira þarf svo gagn sé að. Að mínu áliti voru þessi skref bara áfangi, fyrsta skref að mun stærra marki.  Auðvitað eru rök bæði með og á móti sameiningu. Að mínu mati eru mun fleiri kostir við að halda áfram á braut sameiningar eins og rætt var um fyrir 40 árum.

Ég vil ekki halda fram að öll vandamál verði úr sögunni og það verði stórstígar framfarir verði með frekari sameiningar sveitarfélaga hér í sýslu. Slíkt gefur hins vegar von um breytta tíma. Við sjáum styrk Skagafjarðar sem náðu að sameinast í eitt sveitarfélag þ.e. allir nema þeir í Akrahreppi. Skagfirðingar vinna sína heimavinnu og koma sínum mönnum að á réttum stöðum eins og dæmin sanna. Ætli við þurfum að bíða í önnur 40 ár að eitthvað markvert gerist í sameiningarmálum hér í Húnaþingi. Þegar ég var í hreppsnefndinni höfðu menn mestar áhyggjur af því hvað yrði um fjallskilamálin ef af sameiningu yrði. Ég sé ekki annað en þau mál hafi verið vel leyst í Húnavantshreppi og ekkert sem bendir til að breyting varði á fullu forræði heimamanna þó af stærri sameiningu verði.

Megi gleði ríkja á kosningadag. Hvernig sem allt fer veit ég að allir sem ná kjöri gera það sem þeir geta til að bæta hag samfélagsins. Vonandi verða stigin spor í sameiningarátt og styrkur héraðsins vaxi.

Magnús frá Sveinsstöðum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga