Pistlar | 19. október 2015 - kl. 15:40
Pælingar um styrktarsjóð
Eftir Katrínu Hallgrímsdóttur

Fyrir þó nokkrum árum var tekin sú ákvörðun meðal einhverra að fyrirtæki/stofnanir í bænum skipuleggðu árshátíðir sínar í kringum styrktarsjóðsballið til að hjálpa og styrkja styrktarsjóðinn. Yfirleitt var matur í félagsheimilinu og fólk fór svo beint á ball, þannig miði á ball var innifalin í árshátíðarverðinu og því voru einstaklingar að styrkja gott málefni á sama tíma og þeir gerðu sér glaðan dag. Í dag er þetta að breytast og æ fleiri fyrirtæki/stofnanir eru að draga sig frá þessu fyrirkomulagi sem veldur því að færri en ella fara á ball.

Í fyrra var augljóst að þetta fyrirkomulag væri að breytast og mættu þar af leiðandi sorglega fáir á styrktarsjóðsballið og má því að mínu mati teljast happ ef sjóðnum tókst að koma út á sléttu.

Í ár virðist fyrirkomulagið eiga að vera svipað og því er mér spurn er almennur áhugi fyrir því að halda styrktarsjóði okkar gangandi? En styrktarsjóðsballi sem styrktarsjóður byggir hluta af innkomu sinni á?

Því ef svo er þá þurfum við að sýna samstöðu, leggja hag annarra fram yfir persónulegan hag okkar og sjá til þess að sjóðurinn renni ekki í þrot, sem hann mun gera ef við stöndum ekki þétt upp við bakið á honum.

Því hvet ég alla til að mæta á styrktarsjóðsball næstkomandi laugardag til að styrkja sjóðinn okkar, ef fólk kemst ekki hvet ég þá að minnsta kosti til að kaupa sér miða á ballið með það í huga að þeir séu að styrkja gott málefni!

Katrín Hallgrímsdóttir

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga