Pistlar | 26. nóvember 2015 - kl. 22:29
Kynning á Jólasjóði A-Hún.

Á síðastliðnum árum hefur Rauði krossinn á Íslandi, A-Húnavatnssýsludeild, í samvinnu við Félagsþjónustu A-Hún lagt til fjármagn og fengið styrki frá félagasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum til að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu, sem minna mega sín.

Styrkir þessir hafa verið í formi inneignarkorta hjá Samkaup og hefur Félagsþjónustan metið þörfina og dreif þessum inneignarkortum.

Að beiðni landsskrifstofu Rauða krossins á Íslandi var á síðasta ári stofnaður sjálfstæður jólasjóður sem sinnir sama hlutverki og áður, og í samvinnu við Félagsþjónustuna en án beinnar aðkomu Rauða krossins. Í stjórn sjóðsins sitja fyrrverandi sjálfboðaliðar Rauða krossins sem vilja tryggja það að hægt sé að aðstoða þá sem þess þurfa, eins og aðstæður og fjármagn leyfir.

Þörf fyrir aðstoð á svæðinu hefur aukist frá ári til árs og er ekki eingöngu í kringum jól og áramót, og því hefur Félagsþjónustan einnig fært einstaklingum og fjölskyldum inneignarkort fyrir páska, fermingar og á haustin þegar börn byrja í skólum, því ljóst er að það er oft á tíðum kostnaðarsamt fyrir bæði einstæða foreldra og fjölskyldur.

Markmið sjóðsins er að styrkja þá sem á þurfa að halda. Sjóðurinn er ekki hugsaður þannig að hann skili ágóða. Í raun starfar sjóðurinn frá ári til árs og liggur því ekki með fjármagn á milli ára. Nú fer senn í hönd hátíð ljóss og friðar og því miður hafa ekki allir tök á því að gera sér dagamun þessa hátíðisdaga nema með aðstoð. Þar sem sjóðnum berast einungis styrkir og framlög fyrir hver jól, er hann því svo til uppurinn eftir styrkveitingar fyrir síðustu jól og það sem af er árinu.

Því sendum við þessa kynningu á sjóðnum til fyrirtækja og stofnanna á svæðinu þar sem starfsemin hefur kannski ekki verið öllum kunn og leitum eftir stuðningi fyrirtækja, stofnanna og einstaklinga á svæðinu. Algengt hefur verið á liðnum árum að bæði fyrirtæki og stofnanir sendi ekki út jólakort, heldur styrki góðan málstað og er það góð og göfug hugsun sem nýtist mörgum bágstöddum vel.

Allar nánari upplýsingar um sjóðinn og starfsemina er hægt að fá hjá undirrituðum.

Þeir sem vilja leggja þessu verkefni lið er bent á reikningsnúmer jólasjóðsins 0307-13-110187, kt. 651114-0470.

Með fyrirfram þökk,
Unnur Arnardóttir
Valgeir Valgeirsson
Anna Kr. Davíðsdóttir

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga