Pistlar | 22. október 2016 - kl. 18:30
Ekki skila auðu, Guðmundur
Eftir Lee Ann Maginnis

Guðmundur St. Ragnarsson hvetur Húnvetninga í pistli sínum til þess að skila auðu í komandi kosningum og mótmæla afskiptaleysi stjórnvalda á Húnavatnssýslu. Hann tiltekur að Húnvetningar hafi undarfarin ár ekki haft neinn fulltrúa á Alþingi síðustu kjörtímabil og muni ekki hafa neinn fulltrúa á Alþingi á næsta kjörtímabili. Einnig telur hann að enginn raunverulegur áhugi sé hjá stjórnmálaflokkum á Húnavatnssýslum og stöðunni þar.

Fyrst varðandi áhugaleysi stjórnmálaflokka. Ég hef ásamt Gylfa Ólafssyni, oddvita Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, ferðast um kjördæmið síðustu vikur og nú síðast í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. Við höfum hitt mikið af fólki, kynnt okkur starfsemi fyrirtækja og stofnanna á svæðinu og rætt stöðu mála við íbúa svæðisins ásamt því að halda opna fundi. Biopol og bæjarskrifstofur, dvalarheimili og dekkjaverkstæði.

 

Við höfum kynnt stefnu Viðreisnar m.a. útrýmingu á kynbundnum launamun, breytingar á landbúnaðarkerfinu, markaðsleið í sjávarútvegi, heilbrigðismál, samgöngumál, menntamál og löggæslumál. Allt eru þetta málefni sem íbúar svæðisins hafa viljað ræða og hafa áhyggjur af. Tölur sýna að Norðvesturkjördæmi er eina kjördæmið sem glímir við fólksfækkun og við því verður að bregðast. Við gerum það með fjölbreyttu atvinnulífi og samstöðu þvert á hlutverk og búsetu.

Í öðru lagi varðandi fulltrúa Húnvetninga á Alþingi. Ég fluttist á Blönduós árið 1992, þá sjö ára gömul, ásamt móður minni. Þrátt fyrir að hafa ekki fæðst á svæðinu eða átt foreldra sem eru Húnvetningar, hef ég alltaf talið mig Húnvetning. Hér hef ég búið stærstan part lífs míns. Ég flutti síðan aftur á heimaslóðirnar eftir útskrift úr háskóla árið 2014 og hef búið á Blönduósi síðan ásamt syni mínum.

Guðmundur getur snúið vörn í sókn og kosið fulltrúa Húnvetninga á Alþingi. Það gerir hann með því að setja X við C á kjördag þann 29. október.

Lee Ann Maginnis

Höfundur skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga