Kvennaskólinn. Ljósmynd: Róbert Daníel Jónsson.
Kvennaskólinn. Ljósmynd: Róbert Daníel Jónsson.
Pistlar | 30. desember 2016 - kl. 13:17
Starfsemi Þekkingarsetursins á Blönduósi árið 2016
Eftir Katharina A. Schneider

Þekkingarsetrið hefur verið starfrækt í Kvennaskólanum á Blönduósi frá árinu 2012. Markmið setursins er m.a. að efla rannsókna- og þróunarverkefni á sviði textíls, strandmenningar og laxfiska á Norðurlandi vestra og stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar- og fræðastarfs. Áhersla hefur verið lögð á verkefni á sviði textíls á árinu. Reynsla undanfarinna ára hefur leitt í ljós að einn af helstu styrkleikum svæðisins er textíll og tækifærin á því sviði talsverð.

Unnið var að áframhaldandi uppbyggingu náms í samstarfi við Textílsetur Íslands. Í vor komu nemendur Listaháskóla Íslands í viku starfsnám í Kvennaskólann og fengu kennslu frá Jóhönnu Pálmadóttur og Ragnheiði B. Þórsdóttur, kennara við textíldeild Verkmenntaskólans á Akureyri. Gerð var samstarfsyfirlýsing við Heimilisiðnaðarsafnið um skráningu upplýsinga tengdum munum safnsins í gagnagrunn og aðgengi fyrir listamenn að safninu. Einnig var gerður samstarfssamningur við Textílsetrið varðandi ráðningu Ragnheiðar B. Þórsdóttur í tímabundið verkefni við skráningu vefnaðarmunstra sem varðveitt eru í Kvennaskólanum, ráðningu á sameiginlegum starfsmanni á skrifstofu og eflingu textíllistamiðstöðvarinnar. Listamiðstöðin sem rekin er í Kvennaskólanum á vegum Textílsetursins er á hraðri uppleið.  Listamenn frá öllum heimshornum dvöldu þar á árinu, 64 talsins, og stóðu m.a. fyrir mánaðlegum listsýningum. Þekkingarsetrið hlaut styrk frá Kulturkontakt Nord sem gerði því kleift að veita þremur listamönnum frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum að dvelja í listamiðstöðinni tvo mánuði í senn. Fyrsti styrkhafinn, Baiba Osite frá Lettlandi, kom í nóvember og boðið var upp á námskeið í silkimálun. Aðsóknin í textíllistamiðstöðina er orðin þannig að nauðsynlegt er að bæta vinnuaðstöðu, einnig vegna tækjakaupa. Þekkingarsetrið festi nýlega kaup á stafrænum vefstól frá Noregi. Hann er fyrsti vefstóllinn að þessari gerð sem keyptur er til Íslands. Horft er til þess að m.a. skólar, textílhönnuðir og veflistamenn geti nýtt sér vefstólinn í framtíðinni.

Catherine Chambers, sérfræðingur Þekkingarsetursins á sviði strandmenningar, lauk doktórsprófi við Háskólann í Fairbanks, Alaska þann 22. apríl. Grein eftir Catherine um rannsókn hennar,Thirty years after privatization: A survey of Icelandic small-boat fishermen”, birtist í fræðitímaritinu Marine Policy.  Daniel Govoni, sérfræðingur Þekkingarsetursins á sviði laxfiska, vann að rannsóknarverkefni um líffræðilega fjölbreytni í grunnvötnum, en Háskólinn á Hólum hlaut styrk frá Rannís árið 2014 vegna verkefnisins.

Starfsmenn Þekkingarsetursins voru með dagskrá tengda náttúruvísindum og ullarvinnslu á Háskóladeginum sem haldinn var á Blönduósi í maí. Þau veittu aðstoð við undirbúning Prjónagleði, hátíð fyrir prjónara sem haldin var á Blönduósi í júní á vegum Textílsetursins og samhliða Nes listamiðstöðvarinnar á Skagaströnd tóku þátt í verkefni vegna útgáfu tvítyngds tímarits um listir og listamanna sem ferðast til Íslands.

Starfsmenn hafa einnig haft umsjón með námsverinu í Kvennaskólanum og sátu yfir prófum háskóla- og framhaldsskólanema, samtals 79 próf á árinu. Fyrirlestur um miðaldatextílfræði og ýmiss námskeið á vegum Farskólans voru haldin í Kvennaskólanum á árinu, m.a. námskeið fyrir stuðningsfulltrúa í leik- og grunnskóla.

Fulltrúar frá Þekkingarsetrinu og Textílsetrinu heimsóttu Textiles Zentrum í Haslach í Austurríki í október, en það er öflugt þekkingarsetur á sviði textíls. Heimsóknin var lærdómsrík og sýndi fram á þá möguleika á uppbyggingu hér á svæðinu. Í framhaldi af heimsókninni var hafin vinna um eflingu textíltengdra verkefna á svæðinu.

Starfsmenn Þekkingarsetursins þakka fyrir árið sem er að líða og óskar öllum farsældar á komandi ári!

Fyrir hönd Þekkingarsetursins,
Katharina A. Schneider

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga