Pistlar | 22. maí 2018 - kl. 10:58
Afhverju Blönduós
Eftir Sigurgeir Þór Jónasson

Kæru Blönduósingar.

Ég heiti Sigurgeir Þór Jónasson og ég býð mig fram fyrir L-listann í komandi sveitastjórnakosningum. 

Ég er sonur Jónasar Þórs Sigurgeirssonar rafveitustjóra hjá Landsvirkjun og Lilju Jóhönnu Árnadóttur kennara. Ég bý með Ásdís Öddu Ólafsdóttur sjúkraþjálfara og eigum við 2 stráka, þá Arnór Frey og Ísar Val. Ég er menntaður rafmagnsverkfræðingur frá Danmörku þar sem ég bjó í 9 ár eða þangað til síðasta haust þegar við fjölskyldan fluttum heim til Blönduóss.

Á meðan við bjuggum í Danmörku ræddum við oft við vini okkar hver stefnan í lífinu væri, ættum við að setjast að í Kaupmannahöfn þar sem við vorum bæði í góðu starfi, strákurinn okkar í góðum leikskóla og vinahópurinn orðinn stór. Ættum við að flytja til Reykjavíkur þar sem möguleikarnir eru margir eða ættum við að flytja til Blönduóss þar sem fjölskyldur okkar beggja væri nálægt og við gætum alið börnin okkar upp í sama umhverfi og við ólumst upp í?

Vinir og samstarfsfólk okkar átti oft erfitt með að skilja afhverju við hefðum áhuga á að flytja í samfélag sem telur rétt um 900 manns.

Í okkar huga var þetta aldrei spurning, við ætluðum að bíða eftir atvinnutækifæri á Blönduósi og láta á það reyna að fá bæði vinnu í okkar fagi. Við fluttum heim til að taka þátt í uppbyggingu Blönduóss og hjálpa til við auka möguleika á svæðinu. Þess vegna býð ég mig fram í sveitastjórnakosningum 2018.

Þegar maður býr langt í burtu frá heimahögunum og upplifir að búa í stórborg eins og Kaupmannahöfn, þá áttar maður sig á því hversu gott það er að búa í litlu samfélagi eins og Blönduós er. Þá á ég ekki einungis við þær stuttu vegalengdir sem eru hér innanbæjar heldur líka hversu mikil forréttindi það eru að þekkja nánast alla sem maður á í samskiptum við, bæði í starfi og þjónustu. Strákurinn okkar sem er 5 ára átti ekki til orð eftir fyrstu dagana og vikurnar í bænum, sama hvort það var í leikskólanum, sundi eða Kjörbúðinni, alltaf hitti hann á einhvern sem hann þekkti, hljómar kannski hversdagslegt og ómerkilegt fyrir þeim sem því eru vanir en hann upplifði þetta sem að allir í bænum væru vinir hans og væru til í að hjálpa honum með allt. Einmitt þarna tel ég að einn af styrkleikum okkar sem samfélag liggur, það að búa við að þekkja nágranna sinn er ekki sjálfgefið og ætti að hvetja okkur til að standa saman sem ein heild.

Á Blönduósi er glæsileg íþróttamiðstöð sem hefur að geyma eina bestu sundlaug sem ég hef komið í. Við njótum þeirra forréttinda hér á Blönduósi að bæjaryfirvöld leggja mikinn pening í ungmennafélögin og því er fjölbreytt úrval fyrir börn þegar kemur að íþróttaiðkun. Nú hef ég persónulega reynslu af bæði Hvöt og Neista og ég verð að segja að gæðin í starfinu eru langt umfram það sem maður upplifði í samskonar starfi í Danmörku og ég tel að við séum með starf sem við getum verið mjög stolt af.

Það er þó mikið starf sem þarf að vinna hér á Blönduósi til að sveitarfélagið geti styrkst, húsnæðisframboð er af skornum skammti og hamlar fjölgun í sveitarfélaginu. Við eigum mikið af vel menntuðu fólki sem er uppalið á Blönduósi sem hefur ekki tök á að flytja aftur heim, þessu viljum við hjá L-listanum taka á með því að auka lóðarframboð, framlengja ívilnanir um niðurfellingu gjalda og stuðla þannig að fjölgun íbúðarhúsnæðis á svæðinu.

Ég hvet alla til að skoða stefnumál okkar hjá L-listanum inn á Facebook síðu listans eða á Húnahorninu og mæta í spjall til okkar á kosningaskrifstofuna í Félagsheimilinu á Blönduósi.

Kæru kjósendur, takk fyrir að vera hluti af samfélaginu okkar hér á Blönduósi og gera það eins gott og raun ber vitni, ég vona að þið séuð til í þá uppbyggingu sem við stöndum frammi fyrir og setjið X við L á laugardaginn.

Sigurgeir Þór Jónasson

3. sæti L-listans í Blönduósbæ

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga