Pistlar | 27. ágúst 2018 - kl. 10:29
Faðmlag Guðs
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Þegar þér finnst þú lítils virði, líður illa, ert umkomulaus. Horfðu þá í augun á Jesú.

Eftir því sem þú horfir lengur og dýpra í augun á honum munt þú finna að þú ert elskaður af ómótstæðilegri ást. Þú munt finna hve óendanlega dýrmæt/ur þú er. Elskaður eða elskuð út af lífinu. Elskuð eða elskaður af sjálfu lífinu.

Lífgefandi afl kærleikans

Nú er tími sem aldrei fyrr til að minna á hið eilífa kærleiksríka og umvefjandi faðmlag Guðs. Faðmlag hins skapandi Guðs, höfundar og fullkomnara lífsins. Guðs sem sonur hans, frelsari heimsins birti okkur með lífi sínu og orðum, veru og breytni, dauða, upprisu og uppstigningu til himna.

Við erum að tala um lifandi frelsara, afl lífsins sem vill þér allt hið besta. Aflið sem sigraði dauðann.
Við erum að tala um kærleika Guðs sem Jesús Kristur birtir okkur. Hann sem kom ekki aðeins til að taka á sig okkar mislögðu hendur eða öll okkar misjöfnu verk. Heldur til að styðja okkur og styrkja til góðra verka og leiða út úr erfiðum aðstæðum, myrkri og glötun.

Við erum að tala um anda sátta og friðar, fyrirgefningar og frelsis. Hann sem býður upp á eilíft líf eftir að augu okkar bresta og hjartað hættir að slá.    Já, eílíft líf. Það er náðaverk Guðs, sem hefur andstyggð á óréttlæti og mismunun, hvers konar ranglæti og ofbeldi sama í hvaða mynd sem það kann að birtast. Höfnun, sjúkdómum og dauða. 

Handarfar skaparans

Eitt sinn varst þú aðeins draumur. Fallegur draumur í huga Guðs. Draumur sem rættist.

Í lófa Guðs er nafn þitt ritað. Þú ert handarfar skaparans í þessum heimi, og líf þitt hið fegursta ljóð. Heilagur andi Guðs hefur blásið þér líf, anda og kraft í brjóst til að vera sá sem þú ert. Þú ert leikflétta í undri kærleikans. Njóttu þess í þakklæti og láttu muna um þig.

Mætti ljós lífsins, hamingja, gæfa og gleði anda Guðs, kærleikur hans, friður og blessun fylla líf þitt og þinna ómótstæðilegri elsku hans og fylgja ykkur í dag og að eilífu.

Með friðar- og kærleikskveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga