Pistlar | 16. mars 2020 - kl. 06:08
Faðmlög
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Vegna hinnar illræmdu skaðvænlegu Corona veiru sem nú geysar um lönd og höf jafnvel fellandi mann og annan er nú nánast búið að setja lögbann á faðmlög. Við stöndum berskjölduð og óttaslegin hjá reynandi að halda áfram að lifa okkar daglega lífi og líklega sjaldan eða aldrei þarfnast samstöðu og faðmlaga meir en einmitt nú. Maður mætir fólki með grímur niðurlútt horfandi ofan í eigin bringu af ótta við að hitta einhvern sem það kannast við ef vera skyldi að það lenti óvart í því að heilsa með handabandi af gömlum og góðum sið eða hlýju faðmlagi.

Auðvitað er það skiljanlegt að við þurfum að standa saman í að koma í veg fyrir útbreiðslu þessarar ömurlegu ógnvænlegu veiru með öllum tiltækum ráðum til að reyna að hefta útbreiðslu hennar. Það breytir því þó ekki í grunninn að öll þurfum við á faðmlögum að halda. Því að taka utan um hvert annað í lífinu sem heilbrigðisþjónustan og yfirvöld eru sannarlega að reyna að gera með sínum hætti. Faðmlög geta nefnilega verið svo margbreytileg. Fallegur hugur, hlýtt hjartalag, uppörvandi, jákvæð og kærleiksrík orð. Þá getur faðmlag jafnvel verið rafrænt, skriflegt og eða framkvæmt með brosi og góðum verkum.

Til lengri og skemmri tíma þurfum við öll á einhverskonar faðmlögum og samstöðu að halda svo við hreinlega gefumst ekki upp á þessari veröld.

Biðjum þess að við festumst ekki í ótta og ofsahræðslu og að Guð bægi allri óáran frá okkur og verndi okkur frá öllu illu. Því að það yrði fyrst skelfileg veröld til lengri tíma ef fólk hætti að heilsast með handabandi og faðmast þegar það á við. Svo má ekki verða nema mjög tímabundið.

Hlustum sannarlega á yfirvöld og tökum öllum viðvörunum og tilmælum alvarlega. Um leið er einnig gott að minna sig á að frelsari þessa heims, Jesús Kristur umgekkst holdsveika, fólk með alvarlega smitsjúkdóma og aðra sem fólk almennt vildi ekki vita af. Það gerðu einni móðir Theresa og Díana prinsessa.

Allt sem við þurfum er kærleikur og auðmýkt, faðmlög, friður og fyrirgefning. Ekki eitthvert flangs, kjass eða káf, yfirgang eða fyrirlitningu. Endalaust daður, flaður, blaður eða þvaður. Gætum þess einfaldlega að gjaldfella ekki faðmlögin.

Að heilbrigðum hlýjum og hjartanlegum faðmlögum skal hyggja og með þeim heiminn byggja eins og við á hverju sinni.

Einu grundvallarlögin sem við í raun og veru þurfum á að halda í þessari veröld eru: Faðmlög.

Lifi ljósið og lifi lífið!

Með samstöðu- kærleiks- friðarkveðju.

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga