Pistlar | 23. mars 2020 - kl. 08:46
Gildi kærleikans
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Ég veit ekki hvort þú áttar þig á því en þín elskulegheit geta sannarlega skipt sköpum um líðan fólks.

Klappaðu sjálfum þér og samferðafólki þínu á bakið með hugarfari raunverulegrar velvildar, umhyggju og hlýju. Verum ófeimin við að sjá hvert annað með hjartanu.

Því að með þinni fögru og gefandi, umvefjandi og nærandi nærveru, orðum og bænum, trú von og kærleika getur þú borið smyrsl á og grætt flakandi sár og þerrað svo mörg harmanna tár sem geta um síðir orðið að gimsteinum í rósakransi lífsins.

Viljirðu vera eitthvað í þessum heimi eru peningar, velgengni, viðurkenningar, veraldleg virðing eða völd ekki leiðin. Heldur útbreiddur, miskunnsamur og umvefjandi, fyrirgefandi, fórnfús og friðgefandi kærleikans faðmur sem krefst ekki endurgjalds.

Því að fórnandi kærleikur knýr fram kraftaverk svo við komumst af og lífi höldum. Gleymum því ekki að lifa, taka tillit, njóta og þakka, saman, sama hvað.

Allt sem við þurfum á ævigöngunni er: Virðing, og virk hlustun. Það að setja sig inn í aðstæður fólks. Reyna að skilja. Vera jákvæður, uppbyggilegur og uppörvandi. Með umvefjandi kærleika og brosi. Hjartans hlýju og hrósi.

Fyrirgefðu og þér mun fyrirgefið verða. Brostu og til þín verður brosað. Faðmaðu og þú munt faðmaður verða. Uppörvaðu og þú munt uppörvaður verða. Gefðu og þér mun gefið verða. Elskaðu og þú munt elskaður verða. Syngdu og það verður tekið undir með þér. Farðu með bænirnar þínar og finndu friðinn flæða um þig. Leitastu við að lifa í kærleika og sátt við Guð og alla menn og þér mun líða svo miklu, miklu betur.

Með kærleikans faðmlagi, samstöðu og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga