Pistlar | 19. apríl 2022 - kl. 14:30
Upprisan og lífið
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Jesús sagði: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja." (Jóhannesarguðspjall 11:25-26)

Veistu, að það voru englarnir sem veltu steininum forðum frá hinni dularfullu austurlensku gröf. Það var ekki svo Jesús kæmist út. Heldur til að við sæjum inn. Gröfin var tóm. 

Og veistu, að þú getur fengið þessa sömu engla í lið með þér. Til að vaka yfir þér og leiða þig. Vegna þess sem gerðist inn í gröfinni. Jesús var uppvakinn frá dauðum. Hann lifir og þú munt lifa! Ef þú vilt.

Lykillinn að lífinu

Lykillinn að lífinu er ljósið sem blásið var á en lifnaði aftur og logar nú blítt.

Það er ljósið leið minni á. Lampi sem yljar og vermir. Hönd sem leiðir, líknar og blessar. Friðelskandi hjarta sem hjálpar manni að finna til öryggis og bara fær mann til að líða svo ljómandi vel, þrátt fyrir allt. Jafnvel í allt að því óásættanlegum aðstæðum.

Smit

Guð gefi að yfirfull uppspretta náðar og miskunnar, frelsarans Jesú, hans sem er ljós lífsins fái að streyma til okkar og fylla hjörtu okkar af friði og von svo upprisukraftur hans, líf og kærleikur fái smitast frá hjarta til hjarta. Við þannig fengið logað sem lítil ljós tendruð af ljósi lífsins. Höfundi þess og fullkomnara.

Mætti líf okkar verða ein samfellt lofgjörð til heilags anda Guðs, gjafara lífsins sem einn megnar að viðhalda því um eilífð. Þess lífsins anda sem einn getur tendrað það kærleikans bál í hjörtum okkar sem veitir okkur öllum jöfn tækifæri til að njóta hans í sátt og samlyndi.

Hinn eilífa sköpunaranda kærleika, ljóss og friðar sem hjálpar okkur að skilja hamingjuna. Hina raunverulegu hamingju. Lifa í þakklæti með tillitssemi með því að gleðjast og fagna hinni fölskvalausu gleði upprisunnar, sigri lífsins yfir dauðanum í eitt skipti fyrir öll, saman.

Felum okkur huggaranum sem gott er að leita skjóls hjá öllum stundum. Honum sem við megum fela okkur dag og nótt, hverja stund. Honum sem vill fá að leiða okkur og umvefja og gefa okkur allt með sér.

Hver á annars meiri kærleika en það að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína? Hvað þá svo þeir fái lifað um eilífð með honum?

Guð gefi okkur öllum að njóta heilagra og hátíðlegra, friðsamra, kærleiks- og vonarríkra páska, í Jesú nafni.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga