Pistlar | 11. maí 2022 - kl. 21:14
Tækifærin í breytingunum
Eftir Grím Rúnar Lárusson

Kæru sveitungar, nú líður senn að kosningum og vonandi allir farnir að huga að því hvernig best sé að ráðstafa sínu atkvæði.

Stórar breytingar eru í vændum í okkar nærumhverfi á næstu árum. Allt frá stafrænni þróun stjórnsýslunnar yfir í börn sem munu hefja nám í nýjum skóla. Svo breytingarnar sem við stöndum frammi fyrir gangi vel upp þarf samfélagið að vinna saman sem eitt.

Hjá þeim tveimur sveitarfélögum sem nú eru að sameinast starfar frábært starfsfólk. Ótrúlegustu tækifæri felast í því að hafa gott starfsfólk sem vinnur að hagsmunum allra íbúa. Svo hægt sé að nýta þau tækifæri er mikilvægt að hlúa vel að þessu sama starfsfólki.

Eitt mikilvægasta kosningamálið í væntanlegum sveitarstjórnarkosningum er að við horfum inn á við, hlúum að samfélaginu, styrkjum innviði þess og mannauð. Góður mannauður er lykillinn að góðum árangri, ekki síst ánægður mannauður. Til þess að ná þessum árangri er það stefna Framsóknar og annarra framfarasinna styðja enn frekar við starfsfólk hins nýja sveitarfélags í þeim breytingum sem nú eru framundan. Tryggja þarf starfsfólki viðunandi starfsumhverfi, færi á því að þróast í starfi og sveigjanlegri vinnutíma. Þá er mikilvægt að staðið sé faglega að öllum ákvörðunum sem hafa áhrif á starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélagsins og að starfsfólk hafi bæði rödd og stuðning, bæði fyrir og eftir töku slíkra ákvarðana. Þannig tryggjum við starfsánægju og árangur í starfi.

Þá eru jafnframt miklar breytingar á döfinni í umhverfismálum. Ekki einungis í sorphirðu og úrgangsmálum heldur liggur ljóst fyrir nýtt sveitarfélag mun á næstu árum þurfa að fara í markvissar aðgerðir í þágu náttúrunnar og loftslagsins.

Við þurfum að auka upplýsingagjöf til íbúa um umhverfismál, þar sem upplýst samfélag og samvinna íbúa er lykillinn að árangri. Við þurfum að stórauka skógrækt í landi hins nýja sveitarfélagsins og vera gott fordæmi fyrir aðra landeigendur á svæðinu. Síðast en ekki síst þurfum við stefnumótun á þessu sviði, t.d. með gerð umhverfisstefnu.

Loks er mikilvægt að sveitarfélagið verði virkur þátttakandi í stafrænni væðingu á öllum sviðum. Við þurfum að jafna aðgengi íbúa að upplýsingum óháð búsetu og auka stafrænt aðgengi til muna. Mikilvægt er að vanda til þessara verka strax svo við lendum ekki eftirá! Auk þess getur stafræn væðing hjálpað okkur að hraða grænni þróun.

Nýtum tækifærin sem felast í breytingum og stefnum að stafrænu, sterku og grænu samfélagi, ánægðum og upplýstum mannauði og faglegri ákvarðanatöku.

Tryggjum framsókn og framfarir á öllum sviðum! Ég ætla allavega að gera það og set mitt X við B.

Höfundur er í 3. sæti á lista Framsóknar og annarra framfarasinna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga