Pistlar | 09. nóvember 2022 - kl. 12:04
Nemum staðar, þökkum og gleðjumst yfir lífinu
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Leitum ekki langt yfir skammt í leit okkar að raunverulegri hamingju sem veitir innri frið. Því öll sú andlega fæða sem við þurfum á að halda til að komast af er nær okkur en við kunnum að halda.

Látum eftir okkur að nema staðar og opna augun. Líta upp og dást að sköpuninni og gleðjast yfir því lífi sem Guð hefur tendrað í okkur. Lífi sem enginn og ekkert mun ná að slökkva. Þrátt fyrir að ævigangan vissulega taki enda, sem eru jú ekki nýjar fréttir.

Tendruð af ljósi lífsins

Í tilverunni býðst okkur að vera ljós af ljósi. Og jafnvel þótt ljósið okkar virðist stundum vera aðeins sem veikburða logi þá stendur það traustum fótum á lífsins bjargi. Því það er tendrað af ljósi lífsins. Og getur hæglega orðið sem áttaviti sem varðar þeim sem villtir eru leiðina heim.

Á ævigöngunni hellast yfir okkur margvíslegar slettur í öllum regnbogans litum svo við ruglumst í ríminu og glepjumst um stund og vitum ekki hvaða leið skal halda til að komast á áfangastað. En í fjarska má alltaf sjá ljósið bjarta bera við rætur himinsins sem við fáum að lokum að samlagast. Ljós lífsins sem lýsir upp leiðina heim og auðveldar okkur að velja í hvaða átt skal halda.

Njótum þess að leyfa því að leika um okkur, ylja okkur og verma og hvíla örugg og afslöppuð í því. Í trausti þess að hann sem er ljós lífsins muni vel fyrir sjá og leiða okkur og bera alla leið.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga