Pistlar | 23. febrúar 2023 - kl. 13:45
Andi sköpunarinnar og lífsins
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Kærleiksríki, stórkostlegi Guð!

Það ert þú sem hefur sett okkur hérna niður þar sem þú sjálfur hefur unnið og starfað í þúsundir ára. Þú sem ert andi. Andi sköpunarinnar. Andi lífsins. Andi kærleikans. Andi vonarinnar. Andi trúarinnar. Andi fyrirgefningarinnar og náðarinnar. Andi miskunnseminnar. Andi gleðinnar og andi hamingjunnar. Þú hinn heilagi andi. Andi upprisunnar. Þú ert upphafið og endirinn, frelsarinn og hinn eilífi lífgjafi. Höfundur og fullkomnari lífsins. Lífið sjálft. Og við erum líf af lífi. Líf af þínu lífi. Innblásin af anda þínum og fyrirheitum.

Þess vegna er svo mikilvægt að við mannfólkið myndum saman skjól fyrir þau sem um hrjóstugan svörðin fara. Verðum sem lampar og ljós sem tendrast af þínu lífsins ljósi sem lýsir upp tilveruna og varðar veginn. Og er vegvísir þeirra sem villst hafa af leið. Hafa ratað í ógöngur og finna ekki leiðina upp á veginn aftur. Rata ekki heim.

Opnaðu augu okkar og hjörtu

Svo hátt sem himinninn er yfir jörðinni, svo óendanlega nálægur hjarta mínu er kærleikur þinn, ó, Guð, fyrirgefning, miskunn, náð og dýrð.

Þú opnar mér hjarta þitt og býður mér að leita skjóls við rætur þess. Og þótt ég skjálfi sem strá í vindi nýt ég skjóls er ég aðeins opna mín innri augu. Lít til fjallanna og horfi upp til þín í himininn inn.

Opnum okkar innri augu og opnum hjarta okkar fyrir fegurð lífsins sem er allt í kringum okkur, bara ef við viljum taka eftir því og koma auga á hana.

Takk, kærleiksríki Guð fyrir að velja okkur í lið lífsins. Gefðu að við fáum spilað með þér til sigurs eins og þú hefur heitið okkur. Jafnvel þótt við finnum okkur alla daga eitthvað svo lítil og lin, smá, aum og veik.

Blessaðu lífið okkar og tilveru alla. Hjálpaðu okkur að komast af. Þú sem býðst til að fylgja okkur, leiða og bera þegar við getum ekki meir.

Með þakklæti, kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga