Pistlar | 30. mars 2023 - kl. 15:08
Stökuspjall: Vigdísi valdi þjóðin!
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Fundur hjá framboði Vigdísar Finnbogadóttur var í Árgarði föstud. 9. maí 1980. Þetta var fyrsti fundur hennar úti á landi en Vigdís átti traustan og öflugan stuðningsmann í frænku sinni og vinkonu, Guðrúnu Láru, símstöðvarstjóra og prestsfrú á Mælifelli sem bað frambjóðandann að flýta för sinni norður um nokkrar stundir svo hún gæti hitt okkur framsveitungana í Skagafirði áður en kæmi að kvöldfundinum í Varmahlíð.

Og það varð. 

Framboðsfundur var fyrirhugaður í Varmahlíð föstudagskvöldið 9. maí en áður kom hún til okkar Lýtinganna, öldungurinn Ófeigur á Reykjaborg, einn þeirra sem skrifaði Vigdísi bréf og skoraði á hana að bjóða sig fram, hann kom á fundinn austur yfir brúna á reiðhjólinu sínu, spjallarinn/IHJ hringdi út á Krók og boðaði Önnu og Guðmundi Bergsstaðaskáldi samkomuna þar sem ýmis ráð voru síðan brugguð á þessum fyrsta fundi Vigdísar:

Karla valdi veltir
Vigdís, aldrei hikar.
Siðinn aldinn sveltir
sigurgjaldið blikar.  Ók. höf. 

Talsvert kom af fólki á fundinn, Guðrún Lára hafði komið boðum símleiðis, en fyrirvarinn var örskammur, þar á meðal til Ófeigs og sumir völdu frekar síðdegisfund en kvöldgöltur og fundurinn varð góður, veðrið blítt og austan við félagsheimilið okkar þar í Steinsstaðabyggðinni var staldrað og masað eftir fundinn eins og fara gerir, áður en hver fór til síns heima.

Farið var að skipuleggja framboðsstarfið í Skagafirði fram að kosningum, IHJ/spjallarinn var að ljúka vetrarstarfinu við Steinsstaðaskóla og gat því tekið að sér skrifstofu út á Krók í fáeinar vikur en þau hjónin Guðmundur og Anna buðu fram húsnæði og fæði meðan á baráttunni stæði.

Frambjóðandinn Vigdís skrapp svo litla stund heim í Mælifell til prestshjónanna, en ekki var lengi til setu boðið því fundurinn í Miðgarði var fram undan. Sr. Ágúst á Mælifelli varð trúnaðarmaður framboðs Vigdísar í sveitum Skagafjarðar og safnaði undirskriftum til stuðnings.

Framboðsmálin á Norðurlandi fóru vel af stað á þessum blíða föstudegi.

Alls kyns tengsl og svo vináttan sjálf eru dýrmætar perlur á ævilínu hvers einstaklings – og í sögu þjóðar.

Þjóð í vanda velja skal
– vel svo standi í hríðum.
Íslands-landa vífa val
varnar grandi lýðum. Ók. höf.

Og allt gekk vel eftir, væn hjón við Skagfirðingabraut leigðu okkur neðri hæðina hjá sér, einhver fann hjá sér aukakaffikönnu, kexpakkinn fékkst í búðinni og stundum fengum við sendan lummudisk frá ötulum stuðningsmanni út í bæ til að geta tekið betur móti gestum. Vestan úr Húnaþingi fengum við gesti, þar af tvo sem lögðu ríflega í kosningasjóð, aðra framan úr Firði með hressandi fréttir, Jói í Stapa þurfti daglega í Krókinn vegna þrauta af vöðvabólgu og staldraði þá við á kosningaskrifstofunni og beið þar eftir seinni meðferðinni. Fleiri skáld létu til sín taka í stuðningi við Vigdísi – nefni hér Þorsteinn frá Ásbrekku sem bjó fram í Sæmundarhlíð.   

Einhverju sinni hringdi Þorsteinn á skrifstofuna og lauk símtalinu með hvatningarvísu.

Giftum manni er voðinn vís
– við skulum hætta að rausa –
en meirihlutinn kátur kýs
konu makalausa. Þorsteinn Ásgrímsson Varmalandi

En Jói var nærstaddur og snöggur að bæta við annarri: 

Meðan takast menn á hér
og margir saknæmt rausa
yfir vaka vil ég þér
Vigdís makalausa. Jói í Stapa

Kosningarnar fóru síðan fram sunnudaginn 29. júní þar sem Vigdís bar sigurorð af Guðlaugi Þorvaldssyni, munaði 1906 atkvæðum. Albert var í þriðja sæti en Pétur J. Thorsteinsson í því fjórða.

Mánudaginn 30. júní 1980, fyrir tæpum 43 árum, á fyrsta degi nýkjörins forseta, var Vigdísar víða getið í fréttum eða myndum og m.a. vitnað til þessara orða hennar:  

„Við eigum ekkert að vopni nema orðið, en við getum mikið sagt með orðum."

Guðmundur Halldórsson rithöfundur frá Bergsstöðum í Svartárdal, búsettur á Sauðárkróki, kallaði þetta kosningavor Vigdísarvor, þegar atburðir eða skemmtisögur frá því voru rifjaðir upp.

Samtímaefni úr Dagblaðinu/DV
DV: Vigdís forsetaframbjóðandi á kosningafundi í Hafnarfirði: https://timarit.is/files/49269030

DV: Heimir Pálsson um frambjóðandann Vigdísi: https://timarit.is/files/49270720
DV: Framboðsfundur á Ak.: https://timarit.is/files/49272230
DV: Fleiri myndir frá Akureyrarfundi: https://timarit.is/files/49272235
DV: Daginn eftir kosningarnar: https://timarit.is/page/3094741?iabr=on#page/n0/mode/2up
Af vef Vigdísar: https://tilvitnun.is/hofundur/vigd%C3%ADs-finnbogad%C3%B3ttir
Björn Reynir Halldórsson/Vísindavefur: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63285.
Vísa Þorsteins af Húnaflóa/vísnavef: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/visur.php?VID=26686
Guðrún Lára Ásgeirsdóttir: Á meðan ég man II Rv. 2016,  bls. 132-5

Tvær vísnanna hér að ofan eru höfundarlausar, hafa varðveist þannig að sr. Ágúst á Mælifelli skrifaði þær aftan á símskeytaeyðublað, sennilega eftir símtal.

Ljóð af vefnum:
Í kosningabaráttunni orti Elísabet Þorgeirsdóttir, fiskvinnslukona og skáld, kvæðið hér að neðan til Vigdísar.

Til Vigdísar

Um leið og ég tíni
ormana úr þorskinum –
hvet ég þig til dáða.

Ég læt hnífinn vaða
í þorsk eftir þorsk
sem allir fá að heyra boðskapinn
áður en þeir falla í öskjurnar
og sigla til USA.

Um leið og ég vind bleyjurnar
og skelli óhreinum diskum í vask
sendi ég þér í huganum baráttukveðjur
þríf hastarlega til í öllu mínu drasli
reyni að beisla kraftinn
sem ætlaður er þér.

Þú manst
að barátta þín er fyrir okkur
hundruð mæðra í hundruðum eldhúsa
þúsund ára daglegt strit
í harðbýlu landi.

Haltu áfram
og ég held áfram
að hvísla því að þorskinum
en þrái mest
að fræða son minn
í fyllingu tímans
um kjark þinn. EÞ 1980.

Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga