Úr Vatnsdalshólum. Mynd: Auðunn Blöndal
Úr Vatnsdalshólum. Mynd: Auðunn Blöndal
Pistlar | 17. apríl 2023 - kl. 16:40
Vor í blænum
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

1. Vorið léttum lófa strauk
landsins kalda vanga.
Veglaus út í veðrið rauk
vetrarnóttin stranga. Sveinbjörn Beinteinsson Draghálsi

2. Létt er sungið, lagsins glóð
lyftir þungum dofa.
Vorsins ungu ástaljóð
allar tungur lofa. KS

3. Fuglar hagleg hefja ljóð,
hljómar lag við kvæði.
Vefur dagur gulls úr glóð
geislafagurt klæði. Kristján Sigurðsson Brúsastöðum

4. Fljúga óra fjærst úr geim
flotar stórir, loftið skarta.
Seiða fóru hingað heim
hreiðurmór og nóttin bjarta. Ólafur Sigfússon Forsæludal – Vorboðar

5. Snjórinn hlánar, færast fjær
fannir beggja hlíða.
Sjórinn blánar, grundin grær
gaukar hneggja víða. Sigurður Norland Hindisvík   

6. Bráðum tekur vorið völd
vetrarkvíða lýkur
himinblámans heiðu tjöld
hörpusilki strýkur. Einar Kristjánsson Hermundarfelli/Akureyri

7. Velkomin sértu, vorið góða.
Ég veit þú færir mér gjöf.
Gleðinnar bikar barmafullan
og blóm á vetrarins gröf. Þorbjörg Kristjánsdóttir frá Stapadal við Arnarfjörð

8. Þar sem kærleikans kraftur hlýr
kynslóðum markar sporið
blanda geði börn og dýr
og bregða á leik út í vorið. TRJ

9. Og ellinni hlýnar við hjartarót
þegar horft er á barnslega kæti
sem er friðartákn, ekki múgsefjað mót
myndað á borgarstræti. Tómas R. Jónsson Blönduósi

10. Sveitin stóð í sumarblóma
söngfuglanna greindi eg hljóma
og klettabeltin enduróma
allan þennan raddaklið.
Í hverri lautu lækjarnið.
Vötnin slétt með geislagárum,
grösin vætt af daggartárum.
Brekkur vöfðu blómskrúðið. Ingvar Pálsson Balaskarði – Bernskuvonir, vísa nr. 2

11. Harpan gamla, hljóð og stúrin
hímir nú með slitna strengi.
Önnur komin, ung og glúrin
ómað getur hátt og lengi. Bjarni Pálsson f. 1927 Blönduósi – Ein kemur ...

12. Brosir sól á himni heiðum
hlýnar geð.
Blærinn andar ástúðlega.
Allir með.
13. 
Gleymast vetrarhretin hörðu
hjartað slær.
Sveipast grænum silkitröfum
sveitabær.
14. Síli kát við sjávarstrendur
silfurgljá.
Lax á flúðum fimur stekkur.
Fagna má.
15. 
Lifna grösin, laukar spretta
lindin hlær.
Þegar vorið vængjalétta
vappar nær. Þórhildur Sveinsdóttir Hóli/Reykjavík

16. Vetrarþilju hjaðnar hem
Hljóðnar bylja strengur.
Sést í iljar öllu sem
andstætt vilja gengur. VKB

17. Geislar róla hól af hól.
Hrökk úr bóli myrkrið svarta
uns að Njóla ekkert fól
auga sólarguðsins bjarta. Valdimar K. Benónýsson Ægissíðu

18. Ég opnaði alla glugga
sem unnt var á gamla bænum
því vorylur vakti í blænum
og vorið á enga skugga.
19. 
Þó voru nú enn að verki
þær vetrarins hljóðu nætur
sem höfðu í hjartarætur
sín helköldu skorið merki.
20. 
Sem væri þar ennþá vetur
var von minni þungt um sporið.
Ég veit, það er aðeins vorið
sem vermt hana að nýju getur.
21. Nú inn bar um opinn glugga
þess yl um mín húsakynni.
Og bjart varð þar aftur inni
er áður ég sat í skugga. Jónas Tryggvason Finnstungu/Ártúnum/Blönduósi – Vor í blænum

22. Enn er risinn upp af tímans djúpi
á aldahimin sumardagur nýr
en landið fagra klæðist klakahjúpi
við kjörin hörðu þjóðin smáa býr.
Allt þráir vor í lífsins mikla mætti
menn og skepnur biðja um nýjan þrótt
sem vígður sé með vorsins hörpuslætti
í veldi lífs með dásemdanna gnótt.
23. 
Ó, kom þú vor, í víðri merking þinni
lát vaxa blómstur upp í hlíð og dal.
Fossinn bjarti frjáls með hörpu sinni
flytji ljóðin snjöll í hamrasal.
Ó, kom þú vor, með glóey himinhæða
í hjarta þjóðar býr sú óskin heit
með hennar geislakrafti komdu að bræða
hvern klakafjötur yfir bæ og sveit.
24. 
Kom, andans vor, í Íslands þjóðarhjarta
með eldi lífsins brenndu fánýtt hjóm.
Úr huga hverjum hrek þú skugga svarta
hvert hjarta gjör að þroskans helgidóm.
Lát gróa blóm, sem göfgi mannsins skapar
í geislamætti kærleikssólu frá.
Kom, góða vor, sem gildi aldrei tapar
og gæfa minnar þjóðar byggist á.

Ingibjörg Sigurðardóttir Króki/Sandgerði – Sumarmorgunninn fyrsti 1951

Ljóðastund í Mjódd, safnaðarheimili Breiðholtskirkju verður á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta kl. 14. Ljóð Kristjáns Sigurðssonar kennara á Brúsastöðum verða lesin upp, Jón Benedikt Björnsson félagsfræðingur, ferðagarpur og sonarsonur Kristjáns rifjar upp þætti úr ævi hans og Benedikt Blöndal Lárusson á Blönduósi flytur þátt eftir móður sína, Ragnheiði Blöndal á Brúsastöðum. Svo verða kleinur með kaffinu.

Áður birtur þáttur af Kristjáni:
https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=20068

Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga