Pistlar | 19. febrúar 2024 - kl. 14:57
Hvað er málið?
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Málið er ekki að vera alltaf alls staðar: Mega ekki missa af neinu eða að gefa sig út fyrir að vita alltaf allt best eða finnast maður þurfa að eiga alltaf síðasta orðið í öllum mannlegum samskiptum.

Það snýst eiginlega ekki heldur um að þykjast vera eitthvað. Að vera háður því að þurfa sífellt að vera að toppa sig, háður einhverjum markmiðum eða sigrum á ævigöngunni.

Heldur að njóta þess meðvitað að fá að vera með. Að leggja sig fram og leitast við að gera sitt besta í mannlegum samskiptum. Að lifa í þakklæti fyrir náð og miskunn Guðs. Að lifa vonarríku lífi sem fyllt er af kærleika og friði. Að sjá og gefa af sér með hjartanu. Vera Guði til dýrðar og fólki til blessunar og þannig sjálfum okkur til heilla.

Stöndum saman

Við þurfum sem samfélag á fólki að halda sem hefur kjark til að gangast við hvert öðru með hlýju viðmóti. Fyllt kærleikshugsjón og anda. Fólki sem er persónulegt, hlýtt, umhyggjusamt og gefandi. Fólki sem tilbúið er að telja kjark í hvert annað og fer ekki í manngreinarálit. Fólki sem tilbúið er að gráta með syrgjendum, uppörva fólk í veikindum og gleðjast með fólki án þess að öfunda. Fólki sem er trúarvekjandi, uppörvandi kærleiksríkir friðflytjendur sem sýna skilning eru styðjandi, veitandi styrk og von.

Stöndum saman og höldum utan um hvert annað.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

 - Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga