Pistlar | 25. febrúar 2024 - kl. 15:36
Að hvíla í stundinni
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Vertu
á meðan þú ert
því það er of seint
þegar þú ert farinn. (Sigurbjörn Þorkelsson)

Vissir þú að þú ert ein af fegurstu og mikilvægustu perlunum í perlufesti Guðs skapara þíns? Þú ert ofin/n úr dýrmætasta efni sem framleitt hefur verið.

Við erum svo ósjálfbjarga ein og sér en ólýsanlega fagrar og dýrmætar, himneskar lífsins perlur þegar vera okkar og tilgangur eru sett í samhengi við lífsins kjarna. Friðaðar óendanlega dýrmætar náttúruperlur sem alls ekki má vaða yfir, vanvirða eða misnota. 

Perlur sem hafa það hlutverk í heiminum að varðveita hið góða. Skína og vísa veginn svo heilindin fái blómstrað og notið sín.

Brosum saman

Hvernig er það annars eigum við ekki bara að standa saman um að hætta því að vera á stundum óþarflega óþolinmóð og hætta því að skamma sífellt og gelta á náungann? Og vera stundum kannski bara smá á staðnum án þess að vera fjarræn og alltaf að líta á símann?

Ræktum samskiptin, vináttuna og samböndin. Styðjum við þá sem þess þurfa með í þolinmæði og kærleika. Því við munum fá það svo margfaldlega til baka í betri líðan.

Hvort sem þú kemur eða ferð gleymdu þá aldrei húmornum, gleðinni, auðmýktinni og þakklætinu yfir undri lífsins. Því að fá að vera með, hvíla í stundinni og upplifa. Mundu, að stundin er þín og hún er núna og þar og einmitt þar má finna hamingjuna. Brosum saman.

Brot úr demanti       

Kærleikur Guðs
er líkt og demantur
sem fellur til jarðar
og splundrast
í óteljandi kristalla.
 
Einn þeirra
er ætlaður þér
svo þú fáir notið
þeirra verðmæta
um eilífð.     
 
Gættu þess aðeins
að pússa perlurnar
í lífi þínu
svo þær fái notið sín,
því að í þeim
felst öll þín hamingja. 
(Sigurbjörn Þorkelsson)

Með kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga