Pistlar | 26. febrúar 2008 - kl. 12:06
Vegna væntanlegrar byggingar 25m sundlaugar á Blönduósi
Eftir Benedikt Sigurðsson yfirþjálfara Sundfélagsins Vestra á Ísafirði

Bolungarvík 25 feb 2008

 

Ágætu íbúar Blönduóss og nágrennis.

 

Mig langar aðeins að leggja orð í belg varðandi væntanlega byggingu 25m sundlaugar á Blönduósi. Ég er mikill áhugamaður um sundlaugar og sundiðkun hvers konar og vil þessum málaflokki alls hins besta. Af því sem ég best veit er það meiningin að byggja 25m útilaug á Blönduósi og finnst mér að mætti aðeins endurskoða þann kost. Vil ég hér kynna fyrir ykkur þann kost sem 25m innilaug gæti haft í för með sér umfram útilaug.

Með því að byggja 25m sundlaug eruð þið að stíga mikið framfaraskref og tek ég ofan fyrir ykkur, segi ég sem er að þjálfa landsliðskrakka í 16m laug á Ísafirði, og bendi á þann sterka kost að hafa laugina innandyra. Bygging sundlaugar kostar sitt og hlýtur það að vera keppikefli að hún verði notuð sem allra mest?

 

Um leið og nýja sundlaugin verður vígð ráðlegg ég ykkur að byrja strax af krafti með sundnámskeið fyrir börn og fullorðna, sundleikfimi, sundbolta (póló) og skipulagðar sundæfingar í framhaldi af sundnámskeiðunum. Að byggja upp sundlíf er átak og sérstaklega í sveitarfélagi þar sem engin hefð er fyrir sundi. En þetta er vel framkvæmanlegt í innisundlaug þar sem hægt er að bjóða uppá allar útfærslur í vatni, frá ungbarnasundi til sundleikfimi eldri borgara. Með því að byggja útisundlaug lokið þið of mörgum dyrum að mínu mati og skerðið þá möguleika að notkun laugarinnar verði sem mest. Ég tala af reynslu því ég hef staðið á sundlaugarbakkanum og/eða verið ofan í lauginni s.l.  25 ár og lifað og hrærst í þessum málum.

 

Við búum á Íslandi og erum mjög háð veðri og vindum sem ekki er gott fyrir þann sem hyggst efla sund sem íþrótt. Nær væri að byggja yfir sundlaugina og hafa gott útisvæði með heitum pottum og.sv.fr. Kyndingarkostnaðurinn yrði einnig mun minni í innilaug.

Góð sundlaug getur gert gæfumuninn fyrir framtíð staðarins því sund er almenningsíþrótt þar sem fjölskyldan sameinar áhugamálið og er aðdráttarafl fyrir þá sem því hafa kynnst.

Ég óska ykkur alls hins besta við byggingu nýrrar sundlaugar og vona svo sannarlega að hún verði innandyra. Ég er tilbúinn að koma til Blönduóss og gefa ykkur góð ráð varðandi uppbyggingu sundlífs á staðnum.

 

Bestu kveðjur, Benedikt Sigurðsson, yfirþjálfari Sundfélagsins Vestra á Ísafirði og þjálfari yfir yngsta hóps landsliðs Íslands í sundi.

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga