Pistlar | 13. desember 2017 - kl. 15:02
Perlur úr lind minninganna
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Það er svo sárt að sakna en það er gott að gráta. Tárin eru dýrmætar daggir, perlur úr lind minninganna. Minninga sem tjá kærleika og ást, væntumþykju og þakklæti fyrir liðna tíma. Minninga sem þú einn átt og enginn getur afmáð eða frá þér tekið.

Tárin mýkja og tárin styrkja. Í þeim speglast fegurð minninganna. Gráttu, „því að sælir eru sorgbitnir því þeir munu huggaðir verða.“ Sælir eru þeir sem eiga von á Krist í hjarta því að þeir munu lífið erfa og eignast framtíð bjarta.

Leyfðu sorginni að hafa sinn tíma og fara í sinn eðlilega farveg. Svo mun það gerast, smátt og smátt að þú gefst upp fyrir henni og minningarnar björtu og góðu komast að, taka við og búa með þér. Ómetanlegar minningar sem enginn getur frá þér tekið. 

Að harðasta vetrinum loknum fer svo aftur að vora og yljandi vindar taka um þig að leika og litskrúðug ólýsanlega fögur blóm gera vart við sig, hvert af öðru. Þau taka að spretta umhverfis lind minninganna.

Blessaðir séu þeir sem gefa sér tíma til að strjúka vanga og þerra tár af kinn bara með því að faðma og vera til staðar. Því mundu að með veru þinni getur þú fært sálir fólks upp úr dimmustu kjöllurum og upp á björtustu svalir.

Forðastu ekki þá sem sorgin hefur bitið. En mundu að spakmæli, reynslusögur, viðmið eða of mörg orð yfirleitt eiga ekki við í húsum sem sorgin hefur sótt heim. Hlustaðu bara og vertu í þolinmæði.     

Því þegar þú vitjar sjúkra, sorgbitinna eða þeirra sem ellin þjakar þarftu nefnilega ekki endilega að staldra svo lengi við. En vertu á meðan þú ert, án þess að vera sífellt að líta á klukkuna.

Trú, von og kærleikur
Öll þurfum við á trú að halda og von. Það fer enginn neitt og gerir ekki neitt án vonar. Fólk sem biður fyrir veikum ástvinum þarf á trú og von að halda. Einnig þeir sem vaka yfir deyjandi ástvini. Og líka þegar við höfum misst og við syrgjum og söknum. Þá þurfum við á voninni að halda og trúnni og ekki síst hinum umvefjandi kærleika Krists sem getur líka birst í faðmlagi og umhyggju samferðamanna okkar og fólksins í kringum okkur. 

Jarðneskir englar
Fegraðu umhverfi þitt með gjöfum. Stráðu fræjum kærleika, umhyggju og friðar. Og þín verður minnst sem þess sem elskaði. Þess sem bar raunverulega umhyggju fyrir fólki.
Boðberar kærleikans eru jarðneskir englar sem leiddir eru í veg fyrir fólk til að veita umhyggju, miðla ást, fylla nútíðina innihaldi og tilgangi, veita framtíðarsýn vegna tilveru sinnar og kærleiksríkrar nærveru. Þeir eru jákvæðir, styðja, uppörva og hvetja. Þeir sýna hluttekningu, umvefja og faðma, sýn nærgætni og raunverulega umhyggju í hvaða kringumstæðum sem er án þess að spyrja um endurgjald.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi ljósið og lifi lífið!

Sigurbjörn Þorkelsson er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga