Pistlar | 04. mars 2018 - kl. 11:26
Ævinleg glíma við sjálfan sig
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Ég hef aldrei hitt nokkurn mann sem þarf ekki að glíma við sjálfan sig, eðli sitt, trú og sjálfan dauðann. Einhverja óáran í lífi sínu, sjúkdóma, brot, syndir eða sorg, mannlegan breyskleika, vandræði í samskiptum, óásættanlega hegðun einhvers konar vanlíðan, áhyggjur og vonbrigði.

Öll gerum við mistök

Ég veit heldur ekki um neinn sem ekki hefur á einhverjum tímapunkti hugsað illa til náungans og jafnvel hugsað honum allt að því þegjandi þörfina. Öll hlaupum við á okkur og gerum einhvers konar mistök. Með því að beita valdi og jafnvel ofsa þar sem mögulega meintum fýsnum eða girndum, græðgi og yfirgangi er svalað á einhvern hátt, sem við virðumst greinilega ekki alltaf hafa fullkomna stjórn á og virðumst jafnvel ráða bara eitthvað svo ferlega illa við.

Og hver hefur ekki borið einhvers konar ljúgvitni gegn náunganum og bara sjálfum sér eða stolið með einhverjum hætti, kannski bara pínu smá af því að það sá það enginn? Erum við ekki öll þarna með einhverju móti, einhvern tíma, á einhverjum tímapunkti, meira aða minna.

Hversu oft gerum við ekki það sem við í rauninni viljum ekki og sjáum eftir? Og hversu oft látum við ekki ógert að gera það góða sem við vildum hafa gert?

Ekkert afsakar samt gerðir okkar eða ranga hegðun eða breytni og við getum ekki skýlt okkur á bak við eðli okkar, hugsanlega misbeitingu í fortíð eða af því að okkur finnst við eiga eitthvað skilið eða eiga eitthvað inni.

Upp til hópa erum við samt ekki hættulegir glæpamenn sem þarf að taka úr umferð eða uppræta. En við þurfum sannarlega stöðugt að vera að vinna í okkur sjálfum og hegðun okkar og vera í stöðugri endurmenntun í lífsleikni.

Við getum öll bætt okkur

Verum fólk sem hugsar sig tvisvar um. Verum fólk sem á frumkvæði að því að biðjast fyrirgefningar og meina það. Leitumst við að bæta okkur í samskiptum. Horfum í eigin barm og spyrjum okkur daglega og hverja stund: Hvernig get ég bætt líðan fólksins míns, samstarfsfólks og samferðafólks yfirleitt? Hvað get ég lagt af mörkum til að fólkinu í kringum mig líði sem best? Og þá ekki út frá mínum hagsmunum og þörfum heldur þeirra sem við umgöngumst.

Leitumst við að lifa í friði og sátt við alla menn með flæðandi en agaðan kærleika að leiðarljósi þar sem raunveruleg umhyggja og velvild nærir okkur í orða- og samskiptum í allri framkomu og daglegum erli.

Látum ágreining, misklíð og óvild aldrei verða kærleikanum yfirsterkari. Vöndum okkur í samskiptum og fyrir alla muni hættum ekki að segja eitthvað fallegt við hvert annað, uppörva og hvetja, sjá fólk með hjartanu, sýna hlýju og bara hreinlega að faðmast og reynast fólki öxl, faðmur og skjól, þegar á þarf að halda.

Okkar eini tilgangur í þessu blessaða jarðlífi er nefnilega að vera farvegur kærleikans, sáttargjörðar, fyrirgefningar og friðar. Lítum í eigin barm og leggjum okkar af mörkum. Vöndum okkur. Við þurfum að bæta okkur og við getum það hæglega ef vilji er fyrir hendi. Stöndum saman.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga