Pistlar | 02. maí 2018 - kl. 12:48
Stefnuskrá N-listans í Húnavatnshreppi

Hér birtum við stefnuskrá N-Listans. Hvetjum fólk til að kynna sér hana og bendum á að fundur allra framboða verður haldinn í byrjun maí.

Ágætu sveitungar

Þann 26. maí næstkomandi verður gengið til sveitarstjórnarkosninga um land allt. Húnavatnshreppur er ungt sveitarfélag sem enn er í mótun. Viljum við sem stöndum að N-listanum koma að mótun sveitarfélagsins til framtíðar og varð það kveikjan að því að þetta framboð leit dagsins ljós. Frambjóðendur N-listans er framsækið, ungt og dugmikið fólk sem ber hag sveitarfélagsins fyrir brjósti. Margt hefur verið vel gert en er það okkar trú að gera megi enn betur á mörgum sviðum. Baráttan við fólksfækkun er alltaf til staðar og meðan sú þróun á sér stað er róðurinn erfiður. Börnum í Húnavallaskóla fækkar, samfélagið verður eldra og framleiðni verður minni. Stundum er sagt að sókn sé besta vörnin og á það svo sannarlega við í þessu tilviki.

Skortur er á íbúðarhúsnæði á svæðinu, bæði leiguhúsnæði og húsnæði til kaups. Húnavatnshreppur gæti átt frumkvæði að því að leysa þann vanda með byggingu íbúða á Húnavöllum og um leið stuðlað að því að snúa við neikvæðri íbúaþróun í sveitarfélaginu. Náttúrugæði eru mikil í Húnavatnshrepp og sögufrægir staðir eru við hvert fótmál. Nýta þarf hvoru tveggja mun betur til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í okkar litla en víðfeðma samfélagi. Bæði á sviði ferðaþjónustunnar en ekki síður að efla og bæta okkar aðal lifibrauð, landbúnaðinn. Mikilvægt er að íbúar Húnavatnshrepps njóti jafnræðis, óháð búsetu, þegar kemur að nýtingu á þjónustu hreppsins.

- Ragnhildur Haraldsdóttir

 

Félags-, tómstunda og menningarmál

N-listinn vill aðstoða þá sem standa höllum fæti í samfélaginu, hvort sem um ræðir vegna veikinda, aldurs eða örorku. Vill N-listinn geta boðið upp á heimsendingu á mat til aldraðra og þeirra sem með þurfa. Við teljum það lágmarksþjónustu við það fólk sem byggt hefur upp samfélagið og borgað sína skatta til þess. Nýta mætti þá frábæru aðstöðu sem er til staðar á Húnavöllum.

N-listinn vill búa svo um að barnafólki þyki ákjósanlegt að búa hér. Við viljum auka aðgengi barna að íþrótta- og tómstundastarfi svo að börnin okkar standi jafnfætis börnum í nágrannasveitarfélögum okkar. Við viljum leita leiða til að auka samstarf við nágrannasveitarfélögin um þessi málefni.

Skólamál

N-listinn mun standa vörð um rekstur og sérstöðu Húnavallaskóla. Við munum leggja áherslu á að börn eftir eins árs aldur muni eiga sæti í skólabíl og að sveitarfélagið beri þann kostnað. N-listinn vill leita leiða til að börn undir 1 árs aldri hafi aðgang að dagvistun.

Leitað verður leiða til að auka aðgengi unglinga hér á svæðinu að dreifnáminu á Blönduósi. Teljum við mikilvægt að unglingar hér geti litið til dreifnámsins sem fyrsta kost til framhaldsnáms.

Samgöngumál

N-listinn mun leggja áherslu á að farsímasamband náist á öllum bæjum sveitarfélagins. Teljum við það sjálfsagt mál að allir standi jafnt þegar kemur að fjarskiptum auk þess sem símasamband er mikilvægt öryggistæki.

N-listinn mun berjast fyrir því að vegir í Húnavatnshrepp verði gerðir greiðfærir fyrir alla bíla, líka fólksbíla.

Að sama skapi mun N-listinn beita sér fyrir því að vegir verði mokaðir svo tímanlega að morgni að skólabílar og þeir sem sækja vinnu utan heimilis komist leiðar sinnar.

Sameiningarmál

Innan hvers sveitarfélags búa ólíkir einstaklingar sem hafa hver sína skoðun. Allir hafa þeir þó að sameiginlegu leiðarljósi að vilja búa sínu samfélagi sem bestan kost. Íbúalýðræði, þar sem raddir allra heyrast, er því mikilvægt verkfæri til að koma sinni skoðun á framfæri.

Hér á svæðinu verður kosið um sameiningu og mun N-listinn virða niðurstöðu þeirrar kosningar og starfa eftir henni. Sú kosning nær til þeirra fjögurra sveitarfélaga sem hér eru þ.e Skagabyggðar, Skagastrandar, Blönduós og Húnavatnshrepps.

Stjórnsýsla og fjármál

Ábyrgð er lykilorð þegar kemur að því að sýsla með fjármuni og ákvarðanatöku sem snerta samfélagið okkar. Vel rekið samfélag leyfir íbúunum að njóta afrakstursins með því að efla þjónustu og starfa að verkefnum ýmiskonar sem auðga hreppinn okkar. N-listinn mun kappkosta að hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

  • Að sýna ábyrgð í rekstri sveitarfélagsins
  • Að leita leiða til að efla samstarf milli sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu með það að leiðarljósi að efla sameiginlega hagsmuni og bæta velferð.
  • Að veita upplýsingar til íbúa með íbúafundum og skilvirkri heimasíðu.
  • Að nýta, eins og framast er unnt, vörur og þjónustu úr heimabyggð.

Atvinnumál

N-listinn vill efla atvinnustarfsemi í Húnavatnshrepp – teljum við eðlilegt að sveitarstjórn reyni að tryggja sem flest góð og fjölbreytt störf innan sveitarfélagsins.

Með uppbyggingu á Húnavöllum gætum við laðað að ungt fólk og treyst þannig stöðu grunn- og leikskóla. Með auknum húsnæðismöguleikum væri einnig hægt að auðvelda ábúendaskipti á bújörðum á svæðinu sem og atvinnusköpun. Nýta mætti núverandi aðstöðu á Húnavöllum svo sem mötuneyti, íþróttasal og sundlaug. Einnig búa Húnavellir að því að hafa hitaveitu og að stutt sé í aðra þjónustu s.s heilbrigðisþjónustu.

Laða mætti ný fyrirtæki að svæðinu t.d með úthlutun lóða á góðum kjörum.

N-listinn vill að sveitarfélagið styðji við þá ferðaþjónustu sem nú þegar er á svæðinu og sé opið fyrir því að koma að verkefnum tengdum greininni. Teljum við möguleikana ótvíræða þar sem straumur ferðamanna í gegnum svæðið er gríðarlegur.

Eins teljum við það skyldu sveitarfélagsins að liðka fyrir starfsumhverfi í landbúnað hér í hreppnum.

Til að vinna markvisst að eflingu atvinnulífs vill N-listinn koma af stað virkri atvinnumálanefnd hér á svæðinu.

Umhverfismál

Hreint land er fagurt land – við viljum ekki láta okkar eftir liggja þegar kemur að varðveislu náttúrunnar. Við búum við það að sorphirða hafi verið góð hér á svæðinu sé horft til annara sveitarfélaga. Í talsverðan tíma hefur íbúum staðið til boða að fá heim til sín í sólarhring gám án endurgjalds. Við viljum halda því fyrirkomulagi áfram.

Við viljum líka koma upp hrægámum þar sem bændum gefst kostur á að losa sig við hræ.

Að vinna að útrýmingu ágengra plantna – svo sem skógarkerfils og að eyða njóla teljum við mikilvægan þátt í umhverfismálum.

N-listinn vill að haldið sé uppi öflugum veiðum á ref og svo ekki síst eyðingu minks af svæðinu.

Fjallskil

N-listinn vill að safnhólf og réttir séu í góðu ásigkomulagi og að unnið sé skilvirkt að viðhaldi girðinga á vegum hreppsins. Teljum við málum fjallskila sé að öðru leiti best varið hjá viðkomandi fjallskiladeildum.

 

N-Listinn, Húnavatnshreppi

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga