Pistlar | 25. maí 2018 - kl. 07:03
Ég vil breyta stóru þorpi í lítinn bæ
Eftir Gunnar Tr. Halldórsson

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum munaði aðeins 11 atkvæðum á þeim listum sem buðu fram. Það er ekki ólíklegt að mjótt gæti orðið á mununum aftur, þegar kosið verður þann 26. maí næstkomandi. Báðir listarnir sem nú bjóða fram í Blönduósbæ, vilja vinna að bættum hag íbúanna og betri framtíð. Um það efast ég ekki. Hagsmunir íbúa sveitarfélagsins eru margir og ólíkir. Allir eiga þeir þó hagsmuna að gæta í því, að til sveitarstjórnar veljist bjartsýnt fólk í sóknarhug. Framtíðarsýn í málefnum sveitarfélagsins er grundvallaratriði sem snertir framtíðarhagsmuni íbúanna.

Saga þéttbýlis við Blönduós teygir sig lengra aftur í tímann en marga kann að gruna. Blönduós var löggiltur sem verslunarstaður á nýársdag árið 1876. Frá þeim tíma myndaðist það þéttbýli sem við þekkjum hér við Ós Blöndu. Og nú í ár, þann 4. júlí næstkomandi, fögnum við 30 ára afmæli, en Blönduósbær hlaut kaupstaðarréttindi árið 1988. Með því náðist stór áfangi og stefna okkar á að vera að skila bættu samfélagi á hverju afmælisári.

Til að brjótast megi út úr kyrrstöðu þarf hugrekki og framtíðarsýn. Stöðnun leiðir til hnignunar. Við lifum á spennandi tímum. Ný iðnbylting, fjórða iðnbyltingin, hefur nú þegar hafið innreið sína og mun breyta samfélaginu, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Gervigreind, örtækni og rafræn samskipti eru framtíðin. Það er fyrirsjáanlegt að fjöldi starfa mun úreldast með tíð og tíma, og sum störf munu hverfa hraðar en önnur. Hugaraflið mun ryðja handaflinu úr vegi. Blönduós þarf að eignast hlutdeild í þessari framtíð.

Störf munu í sívaxandi mæli verða óháðari búsetu. Menn munu geta starfað við nánast  hvaðeina og búið hvar sem er. Og búsetuval er lykilatriði. Þar leynast tækifæri fyrir Blönduós. Frama- og starfsmöguleikar framtíðarinnar munu ekki verða bundnir við hina stærstu þéttbýliskjarna.

Blönduós hefur rólegt og fjölskylduvænt yfirbragð. Hér er náið kunningjasamfélag, laust við biðraðir, umferðartafir og mengun. Vegalengdir í daglegu lífi eru styttri en gengur og gerist í stærri þéttbýliskjörnum. Það gefur íbúunum meiri tíma til frístunda. Eftir þessum kostum mun verða eftirspurn í náinni framtíð og þessa kosti þarf að nýta.

Mín framtíðarsýn fyrir Blönduós er ekki flókin. Ég vil breyta stóru þorpi í lítinn bæ. Ég vil halda í þann gamla anda og varðveita þann bæjarbrag sem Blönduós hefur að geyma.  Ég tel að það megi best gera með því að takast á við þær óumflýjanlegu samfélagsbreytingar sem framundan eru og vera hluti af þeim og nýta þau tækifæri sem felast í þeim. Það er ekkert að óttast og allt til að vinna.

Gunnar Tr. Halldórsson
2. sæti Óslistans á Blönduósi

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga