Pistlar | 22. júlí 2018 - kl. 22:00
Hálf klökkur að loknum úrslitaleik Frakklands og Króatíu
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Ég fékk nú bara tár í augun og var hálf klökkur að loknum úrslitaleik Frakklands og Króatíu á HM í fótbolta á dögunum.

Það var virkilega uppörvandi að sjá gleðina og samstöðuna sem fylgdi forsetum þessara þjóða og voru þau ófeimin við að horfast í augu og faðma hvort annað hvað eftir annað og jafnvel leiðast inn á völlinn. Það var svo greinilegt að þau voru staðráðin í því að vilja hvort öðru vel og bera virðingu fyrir þjóð hvors annars.

Þetta jákvæða andrúmsloft og skilaboð skiluðu sér svo vel að leik loknum eftir að þau ásamt öðrum fyrirmennum höfðu stillt sér upp til að taka í hönd leikmanna beggja þjóða og óska þeim til hamingju með þátttökuna og árangurinn.

Það sem hreif mig þó mest var að einmitt á þeirri stundu tók að rigna þessu líka úrhelli svo leikvangurinn varð nánast eins og sundlaug og allir viðstaddir voru gjörsamlega eins og hundar á sundi eða eins og að vera stödd í hressandi sturtu í sparifötunum að loknu góðu partýi.

Í þessu aðstæðum nánast niður rignd og eins auðmýkt og frekar mátti vera vegna úrhellisins tóku þau bara til við að faðma leikmennina rennblauta og sveitta að sér hvern af öðrum og gáfu þau sér tíma til að horfa í augu hvers og eins og segja vonandi eitthvað uppörvandi og fallegt við hvern og einn með bros á vör. 

Þetta augnablik snerti mig mjög og fyllti mig von um betri heim þar sem auðmýkt og þakklæti, faðmlag, uppörvunar- og hvatningarorð fá að ráða för á viðburðum jafnt sem og í lífinu öllu.

Takk fyrir afar skemmtilegt og gott HM, þið öll sem að því stóðuð og komuð með einum eða öðrum hætti.

Mætti fegurðin blómstra úr hjörtum okkar allra. Það mun gerast ef við vöndum okkur í samskiptum og leggjum rækt við hjartalagið og hlúum að þeim góðu fræjum sem þangað hafa verið sáð.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Sigurbjörn Þorkelsson er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga