Pistlar | 01. mars 2019 - kl. 08:17
Í þakklæti og virðingu fyrir heilbrigðisstarfsfólki
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Alltaf er nú gott að hrósa fólki, taka eftir öllu því jákvæða sem er að gerast í lífi okkar og tilveru og þakka fyrir það sem vel er gert.

Mikið ber ég mikla virðingu fyrir og er þakklátur fyrir allt okkar hlýja, góða og vandaða heilbrigðisstarfsfólk, sem leggur sig fram dag eftir dag til að gera okkur ævigönguna bærilegri. Hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, geislafræðinga, líftækna, sjúkraþjálfara og aðra sem starfa í kringum þá.

Þá er maður ekki síst þakklátur fyrir læknana okkar færu og góðu og lyfjafræðingana. Allt þetta blessaða fólk hefur lagt á sig að vera í erfiðu og krefjandi námi jafnvel svo árum skiptir til að læra að bera umhyggju fyrir samferðafólki sínu og skjólstæðingum með því að greina sjúkdóma, lina þjáningar, lækna, þjálfa, liðka og líkna.

Þetta er fólk sem starfar iðulega undir miklu álagi, oft við mjög erfiðar aðstæður. Framkvæma vandasamar skurðaðgerðir, beita hárnákvæmum geislum, eru stöðugt vakandi fyrir nýjum lyfjum og öðrum meðferðarúrræðum.

Og erfiðast er nú líklega að þurfa jafnvel á hálftíma fresti að vera greina skjólstæðingum sínum frá því að komið hafi í ljós eftir rannsóknir og mælingar að viðkomandi sé með ill læknanlegan og jafnvel ólæknanlegan sjúkdóm. Krabbamein eða aðra óáran.

Ég bið því góðan Guð, höfund lífsins, kærleikans og friðarins að blessa alla þessa mikilvægu þjóna í okkar samfélagi og um heim allan og fjölskyldur þeirra.

Hann andi á þau með mætti sínum og gefi þeim styrk til að takast á við sín krefjandi og vandasömu en vonandi líka gefandi verkefni. Hann uppörvi þau öll sem kölluð hafa verið til að vera farvegur kærleika hans á þessu sviði og gefi þeim náð sína til að starfa í auðmýkt. Og að þau fái að upplifa og finna að þau starfi sem framlengdur armur upprisukrafts lífsins sem linar þjáningar, líknar og læknar. Hans sem gerir alla hluti nýja.

Ég hvet okkur öll til að biðja fyrir þeim og hugsa til þeirra með hlýjum hug og með þakklæti í hjarta.

Virðingarfyllst með þakklæti og kærleikskveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga