Vatnsnes
Vatnsnes
Pistlar | 23. nóvember 2015 - kl. 07:12
Stökuspjall - Kalda vatnið kemur mér upp
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Kalda vatnið kemur mér upp
kippir doða úr taugum
verkir sjatna um hrygg og hupp
hverfur roði af augum

sagði sýsluskrifarinn á Geitaskarði sem hafði komið seint heim og drukkinn kvöldið áður og saup kalt vatn til að hressa sig áður en hann færi á kontórinn.

Guðmundur sýsluskrifari er kunnastur af sveitavísum sínum og sr. Pétur Ingjaldsson á Höskuldsstöðum notaði þær gjarnan í líkræður sínar og fleiri hafa brugðið á svipað ráð og sótt sér kraft í þessar einföldu og oft skilyrtu vísur:

Þó Blöndudalur blautur sé
bændur safna auði.
Eiga líka allmargt fé
og afar stóra sauði. GE

Víkur sögunni vestur á Vatnsnes.

Til Præstekaldet Bægisaa
er underdanigst min Attraa,
men kan jeg ikke dette faa
saa beder jeg om lille bitte Tjörn,
som með Sæl og Grönlandsis
kan fodre sine Börn. ÖS

Að setja saman á matfangalista landsel og Grænlandsís lýsir kímni Tjarnarprests, samtímamanns Jónasar og Konráðs, Ögmundur Sívertsen hét hann, en þegar hann fékk Tjarnarprestakall hafði hann líka sótt um Bægisá í Öxnadal sem þótti betra brauð og lét sig ekki muna um að setja í eina vísu með dönsku rími umsóknina til kóngs en annar Tjarnarprestur frá síðustu öld, sr. Sigurður í Hindisvík var meira upp á enskuna og gerði hringhenda lofnarvísu, sem sumir trúa að sé elsta hringhenda á ensku:

She is fine as morn in May
Mild divina and clever.
Like a shining summer day
She is mine forever. SN

Frá þessum skáldaprestum Vatnsnesinga og mörgum öðrum Húnvetningum sagði Þór Magnússon fyrrum þjóðminjavörður stórum hópi nemanda í U3A/húnvetnskum fræðum s. l. miðvikudag, í Húnabúð í Skeifunni. Fyrirlesarinn kryddaði mál sitt með vísum og skemmti með stuttum skrýtlum. Hátt í hundrað gestir þökkuðu fyrir með hressilegur lófataki.

Næstur kemur í Húnabúð rithöfundurinn Ragnar Arnalds og segir frá Þórdísi á Vindhæli. Sá fundur er á sama tíma, kl 17 á miðvikd., 25. nóv.

Í Þjóðskjalasafninu við Laugarveg efnir Sögufélagið Húnvetningur til fundar n. k. laugard. 28. nóv. kl. 13 .Þar flytur Þórður Vilberg Guðmundsson fyrirlestur sinn, Hungurdauði og Hallæri í Húnavatnssýslu 1755-1756

Rithöfundar munu einnig koma og kynna nýjar bækur sínar er tengjast Húnaþingi.

Vísað er til:
Guðmundur sýsluskrifari Einarsson: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26552
Ögmundur prestur á Tjörn: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=z8&ID=16083
Sr. Sigurður í Hindisvík: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=s0&ID=15930
U3A: http://www.u3a.is/

Eldra stökuspjall:
Stjarnlaus nóttin: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12367
Rennur saman haf og himinn: http://www.huni.is/index.php?cid=12328
Stutt eða löng töf: http://www.huni.is/index.php?cid=12272
Kjarval málar http://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12221
Einmitt slík var – móðir þín http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12203
Heiðin magnar seið: http://www.huni.is/index.php?cid=12180
Útsunnan við mána: http://www.huni.is/index.php?cid=12129
Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga