Pistlar | 23. maí 2018 - kl. 22:40
Góðir leiðtogar
Eftir Erlu Jakobsdóttur

Nú í aðdraganda kosninga veltir maður fyrir sér ýmsum málum eins og gengur og gerist. Í sveitarfélaginu mínu eru tveir listar sem bjóða fram og margt frambærilegt fólk á báðum listum. Ég efast ekki um að fólkið á þessum listum vilji það sama fyrir sveitarfélagið sitt, að gera það betra svo það megi vaxa og dafna. Í lok kosninga er mikilvægt að flokkarnir geti unnið saman og sýnt góða samstöðu þegar það á við og unnið saman að góðum verkefnum.

Það sem ég met hvað mest í fari fólks er góð nærvera, hlýleg framkoma og heiðarleiki. Ég vil sjá heiðarlegt fólk í sveitastjórn, fólk sem er tilbúið að vinna saman að verkefnum. Ég vil sjá fólk koma með hugmyndir og leiðir hvernig vinna megi að málefnum. Ég vil heyra fólk tala staðinn okkar upp og ég vil að kjörnir fulltrúar séu vel undirbúnir og vinni fyrir sveitarfélagið sitt. Ég vil að sjálfsögðu sjá leiðtoga sem drífa aðra með sér hvort sem þeir eru í sveitarstjórn eða ekki.

Fyrir mér er leiðtogi manneskja sem skarar fram úr og framkvæmir hluti. Hann  tekur á erfiðum málefnum og er kannski ekki alltaf vinsælasta manneskjan. Leiðtoginn gerir ekki upp á milli fólks heldur starfar að heilindum og er samkvæmur sjálfum sér. Leiðtoginn er með marga góða með sér, fær fólk með sér og nær markmiðum sem hópurinn, sem hann vinnur með, sækist eftir.

Ég hvet ykkur að kynna ykkur stefnuskrá Óslistans hér í sveitarfélaginu og heyra í fólkinu hvað það vill gera fyrir sveitarfélagið sitt. Við á Óslistanum erum svo heppin að eiga fullt af hæfileikaríku fólki sem vill sjá sveitarfélagið sitt vaxa og dafna. Við eigum leiðtoga sem geta fengið aðra með sér í vinnu. Leiðtoga sem leggja hart að sér, vinna af alúð og áhuga, eru viðkunnanlegir, drífandi og hvetjandi. Leiðtoga sem eru góðir í mannlegum samskiptum og geta sett sig í spor annarra og þannig náum við árangri.

Ég treysti Önnu Margreti 100% til þess að leiða nýja sveitarstjórn. Fyrir utan að hafa starfað sem kennari í bráðum 13 ár og hjálpað þar unga fólkinu okkar að ná markmiðum sínum hefur hún einnig starfað ötullega að félagsmálum í héraði.  Kjörtímabilið 2010-2014 var hún bæjarfulltrúi L-listans þar sem hún sat meðal annars í byggðaráði. Á núlíðandi kjörtímabil hefur hún verið varabæjarfulltrúi ásamt því að vera formaður byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún, í stjórn Heimilisiðnaðarsafnsins og í Heilbrigðisnefnd Norðurlands-vestra.

Ég vona svo innilega að fólk mæti á kjörstað og kjósi rétt.

Erla Jakobsdóttir
14. sæti Óslistans

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga