Pistlar | 24. maí 2018 - kl. 20:56
E X X við E L L
Eftir Zophonías Ara Lárusson

Ágætu íbúar Blönduósbæjar.

L- listinn hefur verið við völd í Blönduósbæ sl. 8 ár. Á þessum árum hefur mikið áunnist sem ég hef verið svo lánsamur að fá að taka þátt í.

Ég vil nefna hér nokkur atriði sem L-listinn hefur staðið að á síðasta kjörtímabili.

  • Við höfum hugað vel að barnafjölskyldum og ætlum að gera áfram, t.d hafa leikskólagjöld ekki verið hækkuð sl. 4 ár og viljum við halda þeim óbreyttum áfram. Tekin var ákvörðun um að hafa frítt í sund fyrir öll börn í  Blönduósbæ og viljum halda því áfram ásamt því að bæta eldri borgurum og öryrkjum í þann hóp.
  • Loksins erum við að sjá ávinning af þeirri miklu vinnu sem búið að að leggja í skipulags- og atvinnumál með fyrirhugaðri uppbyggingu gagnavers og fleira á svæðinu. Þessum árangri má þakka góðri vinnu núverandi sveitarstjórnar ásamt starfsfólki sveitarfélagsins.
  • Ljósleiðari var lagður í dreifbýli Blönduósbæjar.
  • Lagfæringar á Blönduskóla ásamt uppbyggingu á skólalóð, með kastala og ærslabelg sem nýtist börnum í skólanum ásamt ferðamönnum. Þá er fyrirhuguð breyting á skólahúsnæðinu fyrir smíðakennslu.
  • Stórátak hefur verið gert í blokkinni að utan og margt fleira af smærri verkefnum.
  • Til stendur að fara í miklar malbikunarframkvæmdir í sumar sem gerir bæinn okkar enn snyrtilegri. Þá er einnig byrjað á framkvæmdum við nýja göngubrú útí Hrútey þar sem myndarlegur styrkur fékkst til verkefnisins.

Fólki er aftur farið að fjölga á Bönduósi og er komin aukin þörf fyrir húsnæði. Íbúðaverð hefur hækkað töluvert á síðustu misserum og er nú kominn grundvöllur fyrir því að byggja íbúðahúsnæði. Bæjaryfirvöld geta komið þarna að máli með ýmsu móti svo af verði. L-listinn vill koma enn frekar til móts við húsbyggjendur til þess að byggt verði við þær götur sem eru tilbúnar ásamt því að skipuleggja ný íbúðasvæði.

L-listinn samanstendur af fjölbreyttu og kraftmiklu fólki sem hefur áhuga á að sjá sveitarfélagið vaxa og dafna á komandi árum. Þar fer fremstur í flokki Guðmundur Haukur Jakobsson sem er og verður sterkur leiðtogi sveitarfélagsins. Hann hefur sýnt það í störfum sínum fyrir Blönduósbæ og víðar. Hann víkur sér ekki undan ábyrgð og lætur verkin tala. Það er þannig leiðtogi sem við þurfum á að halda í þeirri uppbyggingu sem framundan er í Blönduósbæ.

Þess vegna hvet ég þig til þess að setja X við L á kjördag.

Zophonías Ari Lárusson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga