Úr Austur-Húnavatnssýslu
Úr Austur-Húnavatnssýslu
Pistlar | 11. desember 2015 - kl. 14:44
Stökuspjall - Svellar að skörum
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Að gera sér með gestum kátt
í glaumi og söng er hérna vandi,
og með þeim ríða um miðjan slátt.
Margt er skrítið á Norðurlandi.

Til þessara vísu Þorsteins Erlingssonar seilist stökusafnarinn í dag, hún er ort til að þakka Brynjólfi í Þverárdal vinskap og veislu. Vísast er að einhverjir iðjusamir nágrannar hafi hneykslast á Brynjólfi þegar hann henti frá sér orfi og reipum til syngja með og fagna góðum gesti. Steinunn kona hans, systir Erlendar frá Mörk, rithöfundarins góða, hafði vanist vinnusemi í uppeldi sínu og frekar auðvelt er að setja sig í spor hennar að una því lítt að inni sé setið við söng og spil meðan sólin skín og flekkirnir þorna. En mikill fjársjóður er saga Erlendar bróður hennar, skrifuð vestur í Kanada um hríðarnar upp á Laxárdal og stúlkuna hans sem hann sá fyrst á leiksýningu á Krók og sækja má þangað ótal myndir til af harðri lífsbaráttu fyrir einni öld þó löngunin til að skrifa, fræða og tengja lifði af. Erlendur á Mörk segir „að þó að ánægjulegt væri að hugsa til jólanna vegna kertanna, spilanna, jólasveinanna og alls sælgætisins þá gat þó ýmislegt skyggt á ánægju. Til dæmis hugsunin og kvíðinn að lenda í jólakettinum ef maður fékk enga nýja flík fyrir jólin, en ævinlega var stritast við að koma því svo fyrir að enginn krakki lenti í kettinum.“

Húnvetningar og aðrir áhugamenn um sögu þurfa að eiga þessa bók upp í skápnum sínum.

Skáldin á Laxárdal eiga góða fulltrúa á vísnavefnum eins og Rósberg og Elivoga-Svein, Sveinn kvað um hlíðina ofan við Refsstaði:

Skiptin átta eru tíð, 
auðnan fátt mér léði, 
en þegar ég átti þessa hlíð 
þá var kátt í geði.

Svo keypti hann reyndar aftur Refsstaði. Brynjólfur bjó líka á Refsstöðum en fluttist 1888 að Þverárdal og þá lét móðir hans, Hildur Bjarnadóttir Thorarensen byggja baðstofa sem var fimm stafgólf og hvelfing í henni. Þessir afkomendur Bjarna skálds í húnvetnsku dölunum fengust lítt við ljóðasmíð en héldu sannarlega uppi allri risnu og höfðu allgóð metorð. Hreppstjóratignin var þó ekki á lausu, en Guðmundur Erlendsson bóndi í Mjóadal hélt um þá tauma og síðar Stefán tengdasonur hans á Gili. Kona hans, Elísabet á Gili, hafði miklar mætur á Brynjólfi og stóð fyrir merkri samkomu í Bólstaðarhlíðarkirkju til minningar um þennan nágranna sinn. Snúum aftur í hlíðar skáldanna. Rósberg skrifaði á ljóðabók og setti í hendur vinar síns:

Þú, sem dáir dagsins glóð,
draumabláar vökur,
þiggðu frá mér þessi ljóð,
þessar fáu stökur. RGS

Eitt af skáldum dalsins, Guðríður Bjargey, bjó myndarbúi í 30 ár í næsta dal þar sem Blanda rann í gili sínu en Guðríður hefur á efri árum sínum tekið sér bólstað suðaustan undir hlíðum Tindastóls, saumar þar listilegar myndir af elfunni í Blöndudal og yrkir um hrímið:

Svellar að skörum, sölnar stör
svifar í förin hrímið.
Styttast svörin, stirðna kjör
staðnar á vörum rímið. GBH  

Ingi Heiðmar Jónsson

Vitnað er til:
Þorsteins Erlingssonar: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26060
Erlendur Guðmundsson: Heima og heiman Rv. 2002
Sveinn Hannesson Refsstöðum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=5725
Rósberg G. Snædal: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24623
Guðríður B. Helgadóttir: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24707

Eldra stökuspjall:
Mjallar fríða trafið: http://www.huni.is/index.php?cid=12398
Kalda vatnið kemur mér upp: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12381
Stjarnlaus nóttin: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12367
Rennur saman haf og himinn: http://www.huni.is/index.php?cid=12328
Stutt eða löng töf: http://www.huni.is/index.php?cid=12272
Kjarval málar http://www.huni.is/index.php?cid=12221
Einmitt slík var – móðir þín http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12203
Heiðin magnar seið: http://www.huni.is/index.php?cid=12180
Útsunnan við mána: http://www.huni.is/index.php?cid=12129
Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga